þri 06.des 2022
Þjálfari Marokkó tók við liðinu þremur mánuðum fyrir HM
Walid Regragui fékk flugferð.
Það voru óvænt úrslit í 16-liða úrslitum HM í dag þegar Marokkó sló Spánverja út eftir vítakeppni. Vel uppsettur leikur hjá Marokkó sem hefur gert frábæra hluti á mótinu.

Walid Regragui, þjálfari Marokkó, tók við liðinu í ágúst og er hann fyrsti afríski þjálfarinn sem kemur liði í 8-liða úrslit á HM.

Þrátt fyrir að hafa tryggt Marokkó sæti á HM var Vahid Halilhodzic látinn taka pokann sinn í sumar og Regragui ráðinn.

Fouzi Lekjaa, formaður fótboltasambands Marokkó, tók þessa ákvörðun því samband Halilhodzic og nokkurra lykilmanna liðsins var slæmt. Hakim Ziyech hætti að spila fyrir Marokkó vegna þjálfarans.

Lekjaa taldi leikmennina mikilvægari en þjálfarann og sagði Halilhodzic ekki hafa staðið sig í því að halda góðum liðsanda og vilja leikmanna til að spila fyrir þjóð sína.

Það hefur sýnt sig að þessi ákvörðun Lekjaa reyndist rétt, Regragui hefur fengið verðskuldað hrós fyrir gott skipulag og leikplan, fyrir að sameina klefann og laga þau vandamál sem voru.

Regragui er 47 ára gamall og lék á sínum tíma 45 landsleiki fyrir Marokkó. Hann stýrði liði Wydad AC í Marokkó áður en hann tók við landsliðinu.