fim 08.des 2022
Systur Ronaldo brjálaðar - „Ég vil fá hann heim"
Cristiano Ronaldo.
Það er ekki bara Cristiano Ronaldo sjálfur sem er ósáttur við það að sitja á varamannabekknum, fjölskylda hans er líka ósátt við að staðan sé þannig hjá honum.

Ronaldo þurfti að sætta sig við mikla bekkjarsetu hjá Manchester United fyrri hluta tímabilsins og var hann settur á bekkinn í síðasta leik Portúgal á HM; gegn Sviss í 16-liða úrslitunum. Ronaldo spilaði um 20 mínútur er Portúgal vann 6-1 sigur.

Systur Ronaldo hafa oftar en einu sinni komið sínum manni til varnar og það gerðu þær einnig eftir að hann byrjaði á bekknum gegn Sviss. Þær eru allt annað en sáttar við landsliðsþjálfarann, Fernando Santos, og segja að hann hafi niðurlægt bróður sinn.

„Það er synd að niðurlægja mann sem hefur gefið þjóð sinni svo mikið," skrifaði Elma Aveiro, systir Ronaldo, á Instagram eftir leikinn gegn Sviss.

Önnur systir hans, Katia, tekur í sama streng. Hún vill fá Ronaldo heim í faðm fjölskyldunnar. „Ég vil fá hann heim, ég vil að hann yfirgefi landsliðið og sitji við hlið okkar svo við getum faðmað hann og sagt honum að allt sé í lagi. Komdu heim, þar sem við skiljum þig og tökum alltaf vel á móti þér. Við stöndum alltaf með þér."

Ronaldo, sem er 37 ára, er einn besti fótboltamaður sögunnar en hann er á niðurleið á sínum ferli. Það verður fróðlegt að sjá hvort hann muni byrja gegn Marokkó í átta-liða úrslitunum.