mán 23.jan 2023
Sutton spáir því að Fulham vinni Tottenham í kvöld
Chris Sutton.
Chris Sutton, sérfræðingur BBC, telur að vandræði Tottenham haldi áfram í kvöld og spáir því að Fulham vinni 2-1 sigur í viðureign liðanna í ensku úrvalsdeildinni.

Tottenham hefur tapað sjö af síðustu þrettán úrvalsdeildarleikjum sínum, þar á meðal þremur af síðustu fjórum.

„Antonio Conte stjóri Tottenham sagði að sitt lið þyrfti að taka meiri áhættur í seinni hálfleiknum gegn Arsenal um síðustu helgi, þegar Spurs voru undir og að elta," segir Sutton.

„En miðað við hversu illa Tottenham hefur byrjað marga leiki á þessu tímabili er spurning hvort liðið þurfi ekki að fara að taka meiri áhættu frá byrjun?"

„Fulham menn koma kokhraustir í þennan leik, þeir voru óheppnir að fá ekkert gegn Newcastle í síðustu umferð og munu láta vaða aftur. Ég get alveg séð þá vinna Tottenham og auka pressuna á Conte enn frekar."