mán 23.jan 2023
„Ánægður að þetta sé í höfn" - Fleiri á leiðinni í KR
Luke Rae kom að 24 mörkum á síðasta tímabili með Gróttu.
Aron Snær kom frá Fylki fyrir síðasta tímabil.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Unglingalandsliðsmaðurinn Jóhannes fór til Norrköping frá KR fyrir tveimur árum síðan.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét

KR tilkynnti á föstudag um kaup á Luke Rae, enskum kantmanni sem lék með Gróttu á síðasta tímabili. Hann er fyrsti leikmaðurinn sem KR fær í sínar raðir eftir að síðasta tímabili lauk.

Fótbolti.net ræddi við Rúnar Kristinsson um Luke Rae og leikmannamál KR í viðtali í dag.

„Við erum búnir að fylgjast með honum og svo þurftum við að ná samningi við Gróttu og leikmanninn. Þetta tekur alltaf einhvern tíma, maður vill alltaf fá leikmenn til sín sem fyrst en þetta verður að fá að taka sinn tíma. Ég er ánægður að þetta sé í höfn," sagði Rúnar. Einhverjar sögur voru um það að KR hefði haft áhuga á Luke bæði fyrir síðasta tímabil sem og í sumarglugganum.

„Við höfum haft áhuga á honum í langan tíma, en það er ekki alltaf tækifæri til að fá menn strax inn. Hann er kantmaður að upplagi, finnst okkur, og ég sé hann fyrir mér í fremstu línu. Hann getur bæði spilað hægra og vinstra megin, og jafnvel sem senter líka, en við sjáum hann mest fyrir okkur á köntunum."

Jóhannes á leið í KR
Jóhannes Kristinn Bjarnason lék með KR í Bose-mótinu. Hann er leikmaður Norrköping en Rúnar segir að hann gæti spilað með KR í sumar.

„Það eru töluverðar líkur á því, við erum að vinna í þeim málum og ganga frá öllum endum. Hann er samningsbundinn úti, það þarf að semja við félagið úti. Oft eru einhver flækjustig þegar menn eru að koma heim erlendis frá. Vonandi verður hann orðinn leikmaður KR áður en langt um líður."

Ætlar að fá inn markmann með Aroni
Í desember var greint frá því að Beitir Ólafsson væri búinn að leggja hanskana á hilluna. Beitir hefur verið aðalmarkvörður KR síðustu sex tímabilin. Aron Snær Friðriksson hefur varið mark liðsins á undirbúningstímabilinu. Þarf KR að fá inn annan markvörð með Aroni?

„Við vorum með Ómar Castaldo hjá okkur, hann er farinn norður á Akureyri og ætlar að prófa sig þar í 1. deildinni. Við erum með 2. flokks markmann með Aroni núna, Sigurpáll Sören Ingólfsson sem var varamarkvörður KV síðasta sumar og lék með 2. flokki. Það er efnilegur strákur sem er að æfa með okkur núna, en við þurfum að finna okkur einhvern með Aroni og við munum halda áfram að skoða þau mál."

Vantar leikmann inn á miðsvæðið
Ef þú horfir á leikmannahópinn í dag, hvar finnst þér þú þurfa að styrkja liðið?

„Helst kannski á miðsvæðinu, við erum fáliðaðir á miðri miðjunni."

Rúnar talaði um það í viðtali eftir síðasta mót að hann ætlaði að reyna fá Pálma Rafn Pálmason til að taka eitt tímabil í viðbót með liðinu. Hefuru heyrt aftur í honum eftir að tímabilinu lauk?

„Við ræðum reglulega saman, hann er íþróttastjóri KR og frábært að hafa hann hjá okkur áfram þó að hann sé ekki að fara spila með okkur. Ég held að hann sé ekki að fara að reima á sig skóna aftur en það er gott að hafa hann í félaginu."

Ekki að fara frá KR
Eitthvað hefur verið slúðrað um að Kristinn Jónsson gæti verið á förum frá KR.

„Hann er ekkert að fara frá okkur, hann er að æfa á fullu, er í toppstandi og ég get ekki séð að hann sé á leiðinni í burtu."

Er eitthvað á döfinni sem KR ætlar að tilkynna fljótlega?

„Nei, ekkert sem ég get tjáð mig um. Við erum alltaf að skoða, reyna ná okkur í leikmenn. Það tekur bara sinn tíma. Við þurfum að vanda valið og finna leikmenn í þær stöður sem okkur vantar í. Við viljum ekki hrúga inn bara einhverjum mannskap, viljum reyna velja vel, velja rétt, eins og maður reynir svo sem alltaf," sagði Rúnar. Nánar var rætt við Rúnar og verður meira úr viðtalinu birt á morgun.