mán 23.jan 2023
Lampard rekinn frá Everton (Staðfest)
Frank Lampard
Frank Lampard var í kvöld látinn taka poka sinn frá enska úrvalsdeildarfélaginu Everton eftir aðeins eitt ár í starfi. Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins sem hefur loks staðfest fréttir enskra fjölmiðla frá því fyrr í dag.

Lampard tók við Everton af Rafael Benítez í byrjun síðasta árs og tókst að stýra liðinu frá falli á dramatískan hátt.

Everton seldi stjörnuleikmann sinn, Richarlison, til Tottenham fyrir 60 milljónir punda og fékk Lampard lítinn peninga til að nýta á markaðnum.

Á þessu tímabili hefur hann síðan fundið fyrir því en liðið hefur ekki unnið leik síðan í október og var það 2-0 tapið gegn West Ham það sem fyllti mælinn hjá stjórninni.

Lampard fundaði með Farhad Moshiri, eiganda Everton og stjórninni um helgina og var honum þar tilkynnt að ekki væri þörf á hans kröftum lengur. Joe Edwards, Paul Clement, Ashley Cole og Chris Jones yfirgefa einnig félagið.

Everton staðfesti tíðindin í kvöld. Paul Tait og Leighton Baines stýra æfingum liðsins á meðan Everton leitar að arftaka Lampard en Marcelo Bielsa er sagður líklegastur til að taka við starfinu.