þri 24.jan 2023
Færeyskur landsliðsmaður æfir með KA
Gekk í raðir HB fyrir tímabilið 2020 frá EB/Streymi.
KA gæti verið að styrkja sig fyrir komandi átök í Bestu deildinni. Færeyskur landsliðsmaður mun æfa með liðinu næstu daga. Þetta kemur fram í hlaðvarpsþættinum Bolurinn en leikmaðurinn er ekki nafngreindur í þættinum. Fram kemur að fyrsta æfing hans verði í dag.

Samkvæmt heimildum Fótbolta.net er umræddur leikmaður Pætur Petersen sem hefur spilað með HB undanfarin ár. Hann er réttfættur sóknarmaður sem skoraði tíu mörk í Betri deildinni á síðasta tímabili.

Hann á að baki tvo landsleiki og komu þeir báðir í nóvember. Hann verður 25 ára í mars og samkvæmt Transfermarkt lék hann oftast sem fremsti maður á síðasta tímabili en lék einnig á báðum köntum sem og sem fremsti maður á miðju.

Ef hann gengur í raðir KA verður hann þriðji leikmaðurinn sem KA, sem endaði í 2. sæti deildarinnar í fyrra, fær frá því síðasta tímabili lauk. Birgir Baldvinsson er kominn aftur úr láni frá Leikni og þá er Harley Willard kominn frá Þór.