þri 24.jan 2023
Bale mun keppa á PGA golfmóti
Bale í golfi árið 2015.
Gareth Bale, fyrrum fyrirliði velska fótboltalandsliðsins, hefur tilkynnt að hann muni keppa á PGA golfmóti. Hann verður meðal keppenda á AT&T Pebble Beach Pro-Am mótinu sem fram fer í Kaliforníu í næsta mánuði.

Það eru tvær vikur síðan hinn 33 ára Bale tilkynnti að hann hefði lagt fótboltaskóna á hilluna eftir farsælan feril. Hann lék meðal annars með Real Madrid og Tottenham.

Sjá einnig:
Guardiola um Bale: Núna verður hann stórkostlegur golfari

Oft var talað um að áhugi Bale á fótboltanum hefði dvínað og golfið ætti í raun hug hans allan.

Samband Bale við Real Madrid súrnaði eftir að Bale var myndaður með borða þegar hann var í landsliðsverkefni 2019 en á borðanum stóð: 'Wales, Golf, Madríd. Í þessari röð'.

156 áhugamenn keppa á Pebble Beach mótinu og sami fjöldi atvinnumanna. Matt Fitzpatrick sem vann opna bandaríska meistaramótið, Patrick Cantley sem er í fimmta sæti heimslistans og Jordan Spieth sem hefur unnið þrjú risamót eru meðal þátttakenda.