þri 24.jan 2023
Bielsa með miklar efasemdir varðandi Everton
Bielsa bolti á Goodison Park?
Everton er í 19. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og Frank Lampard var rekinn í gær. Sky Sports sagði frá því í morgun að Argentínumaðurinn Marcelo Bielsa væri efstur á blaði hjá Everton og að hann sjálfur væri opinn fyrir því að taka við liðinu.

Bielsa hefur verið án starfs síðan hann yfirgaf Leeds í febrúar í fyrra.

Guardian greinir frá því að það sé hætta á að Bielsa hafni Everton þar sem hann hafi stórar efasemdir. Everton hefur rekið sex stjóra á sjö árum.

Félagið er að missa af Arnaut Danjuma sem var búinn að samþykkja að koma til félagsins en Tottenham skarst í leikinn á síðustu stundu. Bielsa telur að það vanti sárlega hraða í leikmannahóp Everton.

Bielsa, sem er 67 ára, er mikill fótboltaheili og menn á borð við Pep Guardiola og Mauricio Pochettino hafa talað um hann sem einn besta þjálfara heims. Hann gerði áhugaverða hluti hjá Leeds og er í miklum metum hjá stuðningsmönnum liðsins.

Stjórn Everton er einnig sögð vera með Sean Dyche og Thomas Frank hátt skrifaða.

Bielsa er talinn líklegastur til að taka við Everton samkvæmt veðbönkum en nýtt nafn er komið í umræðuna og er nokkuð ofarlega. Það er Marcelino, 57 ára Spánverji sem er fyrrum stjóri Athletic Bilbao, Valencia og Villarreal.