þri 24.jan 2023
Víkingur kaupir Svein Gísla frá ÍR (Staðfest)
Sveinn Gísli í leik með ÍR í fyrra.
Bikarmeistarar Víkings hafa keypt Svein Gísla Þorkelsson, 19 ára varnarmann ÍR.

Á liðnu tímabili lék Sveinn Gísli, eða Gilli eins og hann er kallaður í Breiðholtinu, sautján leiki í 2. deild og bikar og skoraði í þeim þrjú mörk. Þar að auki var hann í landsliðshópi U19 landsliðsins í mars í fyrra sem lék í milliriðli EM.

„Við óskum Gilla alls hins besta hjá Víkingum og hlökkum til að fylgjast með honum vaxa og dafna í framtíðinni!" segir í tilkynningu ÍR.

ÍR hafnaði tilboði frá Njarðvík í miðvörðinn unga í síðasta mánuði en hann er uppalinn hjá ÍR.

Sveinn Gísli er annar leikmaðurinn sem gengur í raðir Víkings í vetur en félagið hafði áður fengið Matthías Vilhjálmsson frá FH.

„Sveinn Gísli er mjög spennandi leikmaður sem hefur mikinn hraðar, styrk og er góð viðbót við frábæran hóp Víkings. Við bindum miklar vonir við hann í framtíðinni," segir Kári Árnason, yfirmaður fótboltamála hjá Víkingi, við heimasíðu félagsins.