mið 25.jan 2023
Skilur afstöðu Arnórs mjög vel - „Einn besti leikmaður deildarinnar í mörg ár"
Missti af þrettán leikjum síðasta sumar vegna meiðsla.
Lék í sex tímabil með KR og varð einu sinni Íslandsmeistari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Arnór Sveinn Aðalsteinsson gekk í raðir Breiðabliks frá KR eftir sex tímabil í Vesturbænum. Arnór er uppalinn hjá Breiðabliki. Breiðablik varð Íslandsmeistari í ár í fyrsta sinn síðan 2010. Þá var Arnór Sveinn leikmaður Breiðabliks.

Hjá KR varð Arnór einu sinni Íslandsmeistari, það var sumarið 2019. Á nýliðnu tímabili lék hann fjórtán deildarleiki og tvo bikarleiki með KR. Arnór verður 37 ára á fimmtudaginn.

Fótbolti.net ræddi í vikunni við þjálfara KR, Rúnar Kristinsson, og var þjálfarinn spurður út í Arnór Svein.

„Það lá ekki beint fyrir að hann færi en maður skilur hans afstöðu mjög vel. Fjölskylda og vinir allir í Breiðabliki og hann er uppalinn þar. Hann vildi fá að enda ferilinn þar, ákvörðun sem hann tók sjálfur. Við buðum honum áframhaldandi veru hjá okkur og ég vildi alls ekki missa hann. Við verðum að skilja hann og hans afstöðu."

„Hann er búinn að þjóna okkur frábærlega vel, mínu mati einn besti leikmaður deildarinnar í mörg ár, ég sé ekki marga betri en hann. Hann er gríðarlegur missir fyrir okkur. Hann var líka ofboðslegur leiðtogi inn í klefanum, mikil fyrirmynd og hjálpaði okkur þjálfurunum á æfingum og í undirbúningi fyrir leiki. Það var mjög gott fyrir KR að hafa fengið að njóta hans krafta,"
sagði Rúnar.

Á ferlinum á Arnór að baki 240 leiki í efstu deild og fimmtán leiki í B-deild. Þá á hann að baki tólf A-landsleiki og tvö og hálft tímabil í atvinnumennsku hjá Hönefoss í Noregi. Hann hefur lengst af á ferlinum leikið sem hægri bakvörður en undanfarin ár hefur hann spilað í miðverði.

Sjá einnig:
Óskar Hrafn: Löngu tímabært að Arnór komi heim
„Ánægður að þetta sé í höfn" - Fleiri á leiðinni í KR
„Enginn fattað að Arnór er besti miðvörður deildarinnar nema ég"
Ætla sér að tefla fram liði sem getur barist á toppnum - „Þarf mikið að ganga upp"