þri 24.jan 2023
[email protected]
Enski deildabikarinn: Aðeins eitt mark í fjörugum leik
Southampton 0 - 1 Newcastle 0-1 Joelinton ('73 ) Rautt spjald: Duje Caleta-Car, Southampton ('86)
Mikið gekk á í fyrri undanúrslitaleik Southampton og Newcastle í enska deildabikarnum á St Mary's í kvöld. Joelinton virtist hafa komið Newcastle yfir þegar hann skoraði þegar skammt var til hálfleiks en Stewart Attwell dómari leiksins dæmdi hendi. Það hefur verið mjög umdeilt og margir á því að þetta mark hefði átt að standa. Newcastle var mun betri aðilinn í fyrri hálfleik en rétt undir lok fyrri hálfleiksins var Nick Pope stálheppinn að hanga inn á þegar hann fór harkalega í Moussa Djenepo sem þurfti að fara af velli vegna gruns um heilahristing. Pope slapp án þess að fá spjald. Newcastle hélt uppteknum hætti í síðari hálfleik og það skilaði sér loksins á 73. mínútu þegar Joelinton skoraði nú löglegt mark eftir undirbúning Alexander Isak sem hafði verið ný kominn inn á sem varamaður. Aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Dan Burn sjálfsmark eftir að boltinn hafi hrokkið af hnéinu á honum en markið var dæmt af þar sem boltinn fór af höndinni á Adam Armstrong og þaðan í Burn. Duje Caleta-Car varnarmaður Southampton fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir að fella Allan Saint Maximin sem var að sleppa í gegn. Isak hefði getað bætt öðru markinu við á síðustu sekúndunum þegar hann lék á Gavin Bizunu í marki Southampton en var kominn í of þröngt færi og skaut í hliðarnetið. Fleiri mörk voru ekki skoruð og fara því Newcastle menn með 1-0 forystu á St James' Park.
|