mið 25.jan 2023
Óvíst með þátttöku Sigga Marinós í sumar - Þór fær erlendan miðjumann á reynslu

Þorlákur Árnason þjálfari Þórs var fenginn í viðtal hjá heimasíðu félagsins þar sem farið var yfir allt milli himins og jarðar.



Hann var spurður út í undirbúningstímabilið hingað til og það sem framundan er og leikmannamál hjá félaginu.

Sigurður Marinó Kristjánsson, einn af reynslumeiri leikmönnum liðsins, kom lítið við sögu á síðustu leiktíð eða í sjö leikjum í Lengjudeildinni. Hann er á leið í aðgerð og óvíst er með þátttöku hans í sumar.

Þá hafa Nikola Kristinn Stojanovic og Fannar Daði Malmquist Gíslason verið að berjast við meiðsli.

„Siggi er líklega á leið í aðgerð á mjöðm og það mun ráða því hvort og að hve miklu leyti hann getur tekið þátt í sumar. Nikola verður orðinn leikfær í mars eða apríl og Fannar Daði í apríl eða maí,“ sagði Þorlákur í samtali við Þórsport.

Það kemur fram í greininni að erlendur miðjumaður sé á leið til liðsins í byrjun febrúar og muni leika með liðinu í viku.