mið 25.jan 2023
Ástæða u-beygjunnar hjá Danjuma sögð vera brottrekstur Lampard
Arnaut Danjuma er genginn í raðir Tottenham á láni frá Villarreal út tímabilið. Það vakti athygli í gær þegar hann var allt í einu á leið til Tottenham eftir að svo gott sem allt var frágengið varðandi skipti hans til Everton.

Búið var að taka mynd af honum í treyjunni, samkomulag í höfn varðandi kaup og kjör, læknisskoðun lokið og búið að undirbúa allt í kringum kynningu á leikmanninum sem átti að vera í gær.

Hann átti bara eftir að skrifa undir samninginn. En svo allt í einu var hann á leiðinni til Tottenham og var kynntur þar í dag.

Daily Mail segir frá því í dag að meginástæðan fyrir ákvörðun Danjuma að fara frekar til Tottenham sé ákvörðun Everton að reka Frank Lampard.

Lampard var látinn fara sem stjóri liðsins á mánudag eftir 2-0 tap gegn West Ham um liðna helgi.