mið 25.jan 2023
[email protected]
Gunnhildur Yrsa heim í Stjörnuna (Staðfest) - „Algjör draumur"
 |
Miðjumaðurinn á að baki 96 landsleiki. |
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er gengin í raðir Stjörnunnar, frá þessu greinir félagið á samfélagsmiðlum í dag. Þar segir að hún sé að snúa aftur heim eftir ellefu ára dvöl erlendis.
„Gunnhildi þarf ekki að kynna fyrir Stjörnufjölskyldunni en hún var síðast hjá okkur árið 2012 áður en hún hélt út í atvinnumennsku," segir í tilkynningunni.
Undanfarin tvö tímabil hefur landsliðskonan leikið með Orlando Pride í bandarísku NWSL deildinni en hún tilkynnti að hún, og eiginkona hennar Erin McLeod, væru farnar frá félaginu og væru að flytja til Íslands.
„Eftir 11 ára fjarveru er algjör draumur að vera komin aftur heim í Garðabæinn. Stjörnuhjartað hefur aldrei verið stærra. Leikmannhópurinn er einstaklega spennandi og það sem Kristján og Andri eru búnir að byggja upp hérna er magnað, ég er spennt fyrir því að byrja og fá tækifærið til þess að spila með öllum þessum frábæru leikmönnum. Áfram Stjarnan, forever and always!" segir Gunnhildur.
Hún er 34 ára gömul og hefur á sínum ferli leikið með Stjörnunni, Arna-Björnar, Grand Bodö, Stabæk, Vålerenga, Utah Royals, Adelaide United, Val og Orlando Pride.
|