fim 26.jan 2023
Spænski bikarinn: Bilbao í undanúrslit
Mynd: Getty Images

Valencia 1 - 3 Athletic Bilbao
0-1 Iker Muniain ('35)
1-1 Oscar de Marcos ('43, sjálfsmark)
1-2 Nico Williams ('45)
1-3 Mikel Vesga ('74, víti)Athletic Bilbao var rétt í þessu að tryggja sér sæti í undanúrslitum spænska Konungsbikarsins með frábærum sigri á útivelli gegn Valencia.

Athletic sýndi frábæra frammistöðu á erfiðum útivelli og verðskulaði sigurinn að leikslokum. Inaki Williams átti frábæran leik þar sem hann lagði fyrstu tvö mörk Athletic upp með sniðugum snertingum innan vítateigs. Fyrst lagði hann upp fyrir Iker Muniain og svo fyrir bróður sinn Nico Williams en á milli markanna skoruðu heimamenn í Valencia.

Staðan var 1-2 í leikhlé en heimamenn í Valencia ekki með eina einustu marktilraun. Markið sem Valencia skoraði var sjálfsmark, Oscar de Marcos tæklaði boltann í eigið net eftir lága og fasta fyrirgjöf.

Síðari hálfleikurinn var jafnari en tíðindalítill. Gestirnir frá Bilbao voru áfram sterkari aðilinn og innsigluðu sigurinn með marki úr vítaspyrnu á 74. mínútu, sem Nico Williams fékk eftir að hafa verið tæklaður innan vítateigs.

Athletic Bilbao er því komið í undanúrslit spænska bikarsins ásamt Barcelona og Osasuna.

Real Madrid og Atletico Madrid etja kappi þessa stundina á Santiago Bernabeu um síðasta lausa sætið í undanúrslitunum. Þar er staðan 0-1 fyrir Atletico eftir 60 mínútur.