fim 26.jan 2023
Framlengt í Madrídarslagnum: Glæsileg mörk
Mynd: EPA

Real Madrid og Atletico Madrid eigast við í 8-liða úrslitum spænska Konungsbikarnum og hefur viðureignin verið framlengd.Staðan er 1-1 eftir hörkuslag þar sem Atletico leiddi stærsta hluta leiksins eftir opnunarmark Alvaro Morata. Morata skoraði snemma leiks eftir stórkostlega sókn Atletico.

Stuðningsmenn Real Madrid tóku ekki vel í það þegar Morata, sem hóf atvinnumannaferilinn hjá Real, fagnaði markinu.

Fyrri hálfleikurinn var tíðindalítill en heimamenn í Real mættu grimmir til leiks eftir leikhlé og sóttu stíft. Við það opnaðist vörnin og fékk Atletico góðar skyndisóknir sem nýttust ekki.

Atletico hélt forystu sinni allt þar til á 79. mínútu þegar Rodrygo Goes skoraði eftir frábært einstaklingsframtak. Honum tókst að skokka framhjá nokkrum leikmönnum Atletico og klára framhjá Jan Oblak.

Nú eru um 10 mínútur búnar af framlengingunni og er Real Madrid með mikla yfirburði eftir að hafa verið sterkari aðilinn nánast allan seinni hálfleikinn.

Barcelona, Athletic Bilbao og Osasuna eru komin í undanúrslitin.

Sjáðu opnunarmark Alvaro Morata
Sjáðu jöfnunarmark Rodrygo