mán 30.jan 2023
Sheffield reiðubúið að missa Sander Berge
Mynd: Sheffield United

Paul Heckingbottom, knattspyrnustjóri Sheffield United, segir að félagið sé reiðubúið við högginu sem mun fylgja því að missa Sander Berge úr leikmannahópnum.



Berge hefur verið að vekja mikla athygli á sér frá liðum úr ensku úrvalsdeildinni og bauð Fulham 20 milljónir punda í hann á dögunum.

Berge verður 25 ára í febrúar og er fastamaður í landsliði Noregs hjá og Sheffield Utd, sem virðist vera á leið upp í ensku úrvalsdeildina á ný. Hann rennur út á samningi við Sheffield eftir eitt og hálft ár.

Berge var ekki í leikmannahópi Sheffied sem heimsótti utandeildarlið AFC Wrexham í 32-liða úrslitum enska bikarsins í gærkvöldi og var næstum slegið út. Leikurinn endaði með óvæntu 3-3 jafntefli, þökk sé jöfnunarmarki seint í uppbótartíma frá John Egan.

„Berge er ekki með okkur í kvöld því stjórnin hefur beðið okkur um að nota hann ekki. Það eru félög í viðræðum um að kaupa hann. Stjórnin vill vernda hann frá meiðslum vegna söluviðræðna. Þetta er ekki eitthvað sem ég er sammála, mér skilst að hann hafi viljað spila þennan leik í dag," sagði Heckingbottom.

„Það ríkir mikil óvissa innan félagsins útaf yfirvofandi eigendaskiptum. Það ríkir stefnuleysi innan félagsins og við erum í fjárhagsörðugleikum. Ein leið til að leysa hluta af þessum vandamálum er að selja leikmann og allir vita að ég er ósammála því. Sander er lykilmaður fyrir okkur og honum líður vel hérna.

„Þetta þýðir ekki að hann verði nauðsynlega seldur en við erum í það minnsta tilbúin fyrir það versta í stöðunni ef það skyldi gerast."

Sjá einnig:
Fulham býður 20 milljónir fyrir Sander Berge