þri 31.jan 2023
Christian Köhler í dönsku B-deildina (Staðfest)
Miðjumaðurinn Christian Köhler, sem lék með ÍA á síðasta tímabili, er genginn í raðir Fremad Amager í Danmörku.

Danski miðjumaðurinn kom til Íslands fyrir tímabilið 2021 og lék þá með Val. Fyrir tímabilið 2022 skipti hann svo yfir í ÍA þar sem hann lék í fyrra.

Hann er 26 ára og á að hjálpa Fremad Amager í baráttunni í neðri hluta dönsku B-deildarinnar. Fremad Amager á enn séns á því að vera í efri hluta deildarinnar en til þess þarf margt að ganga upp.

Liðið er tíu stigum frá því þegar fimm umferðir eru eftir af hefðbundinni deildarkeppni. Í kjölfarið er deildinni svo skipt í tvennt, liðin í efri hlutanum mætast innbyrðis og spila um sæti í efstu deild á meðan liðin í neðri hlutanum spila um að halda sæti sínu í deildinni.

Samningur Köhler við Fremad Amager er til eins og hálfs árs.