mið 01.feb 2023
Enski deildabikarinn: Man Utd í úrslit - Sancho spilaði sinn fyrsta leik síðan í október
Anthony Martial skoraði
Jadon Sancho kom inná sem varamaður í fyrsta leik sínum síðan í október
Mynd: Getty Images

Manchester Utd 2 - 0 Nott. Forest (Samanlagt 5-0)
1-0 Anthony Martial ('73 )
2-0 Fred ('76 )

Manchester United tryggði sig í kvöld í úrslitaleik enska deildabikarsins með því að vinna 2-0 sigur á Nottingham Forest á Old Trafford og fer því áfram samanlagt, 5-0.

Heimamenn byrjuðu með þá Tom Heaton og Alejandro Garnacho í dag enda með þriggja marka forystu eftir fyrri leikinn.

Wayne Hennessey var að spila vel í marki Forest og sá nokkrum sinnum við United-mönnum. Forest fékk eitt stórkostlegt færi undir lok fyrri hálfleiksins er Emmanuel Dennis lét vaða og stefndi boltinn í netið en heppnin var ekki með Forest og hafnaði boltann í Sam Surridge og frá markinu.

Wout Weghorst fékk besta færi United er hann skallaði sendingu Casemiro í stöng rétt undir lok hálfleiksins.

Weghorst vildi fá vítaspyrnu snemma í síðari hálfleik er Scott McKenna sparkaði hann niður í teignum en Peter Bankes, dómari leiksins, lét leikinn halda áfram.

Anthony Martial kom inná eftir klukkutímaleik fyrir Weghorst og var fljótur að minna á sig. Hann kom United í 1-0 á 73. mínútu eftir undirbúning frá Marcus Rashford og þremur mínútum síðar lagði Rashford upp fyrir Fred sem þurfti bara að pota boltanum í netið.

Stuttu síðar kom Jadon Sancho inná sem varamaður í fyrsta leik sínum síðan í október en hann hefur síðustu mánuði verið í einstaklingsþjálfun í Hollandi og kom aftur til móts við hópinn í síðasta mánuði. Hann fékk frábærar móttökur frá stuðningsmönnum United.

Góður sigur hjá United og liðið nú komið í úrslitaleik deildabikarsins gegn Newcastle. Leikurinn fer fram á Wembley þann 26. febrúar.