fim 02.feb 2023
Reykjavíkurmótið: Fram meistari eftir frábæra endurkomu
Magnús Þórðarson kom Fram í forystu
Tryggvi Snær Geirsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Víkingur R. 1 - 4 Fram
1-0 Danijel Dejan Djuric ('9 )
1-1 Magnús Þórðarson ('50 )
1-2 Magnús Þórðarson ('56 )
1-3 Tryggvi Snær Geirsson ('90 )
1-4 Aron Snær Ingason ('90 )
Rautt spjald: Karl Friðleifur Gunnarsson, Víkingur R. ('74)

Lestu um leikinnFram er Reykjavíkurmótsmeistari eftir endurkomusigur á Víkingi í kvöld.

Liðin mættust í kuldanum í Fossvoginum en heimamenn byrjuðu betur og Danijel Dejan Djuric kom liðinu yfir eftir tæplega tíu mínútna leik eftir frábæran samleik við Pablo Punyed.

"Pablo og Dani spila frábærlega sín á milli, Pablo á stoðsendinguna og Dani klárar virkilega vel með þéttingsföstu skoti úr teignum!," Skrifaði Elvar Geir Magnússon í textalýsingu leiksins hér á Fótbolta.net.

Víkingar voru nálægt því að tvöfalda forystuna aðeins tveimur mínútum síðar en Óli Íshólm varði frá Loga Tómassyni og svo átti Ari Sigurpálsson skot í stöngina.

Framarar komust betur inn í leikinn um miðjan fyrri hálfleik en Víkingur fór með eins marks forystu inn í hálfleikinn.

Framarar og þá helst Magnús Þórðarson kom sterkur inn í síðari hálfleikinn og skoraði tvö mörk með sex mínútna millibili snemma í seinni hálfleiknum og kom Fram yfir.

Hann hefði getað skorað þrennuna en Ingvar varði glæsilega frá honum þegar hann var kominn einn í gegn.

Þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka sauð upp úr og endaði með því að Karl Friðleifur Gunnarsson var sendur í sturtu.

Framarar gerðu endanlega út um leikinn með tveimur mörkum þegar komið var framyfir venjulegan leiktíma. Fram er Reykjavíkurmeistari árið 2023.