fös 03.feb 2023
Arsenal staðfestir nýjan samning við Martinelli
Arteta, Martinelli og íþróttastjórinn Edu.
Arsenal hefur staðfest nýjan samning við brasilíska sóknarleikmanninn Gabriel Martinelli. Þessi 21 árs leikmaður er nú samningsbundinn til 2027 en hann er á sínu fjórða tímabili hjá félaginu.

Hann er í stóru hlutverki hjá Mikel Arteta og var í brasilíska landsliðinu á HM í Katar. Hann hefur skorað sjö mörk í 27 leikjum í öllum keppnum fyrir Arsenal á þessu tímabili.

„Við erum í skýjunum með að Gabi hafi skrifað undir nýjan langtímasamning," segir Mikel Arteta, stjóri Arsenal.

„Stuðningsmenn okkar sjá gæðin í honum og kraftinn sem hann gefur í hvert sinn sem hann klæðist treyjunni. Hann er eins á hverjum degi á æfingasvæðinu. Gabi er enn mjög ungur svo við vitum að það mun mikið meira koma frá honum. Við erum á þessu ferðalagi saman."

Arsenal er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar en liðið mætir Everton í hádeginu á morgun.