fös 03.feb 2023
Neville deildi tísti um Greenwood - „Þetta var klaufalegt hjá mér"
Mason Greenwood.
Gary Neville, sparkspekingur og fyrrum leikmaður, hefur beðist afsökunar eftir að hafa valdið mikilli reiði með því að smella við 'læk' á tísti í gær sem sneri að Mason Greenwood. Neville deildi tístinu líka til fylgjenda sinna.

Greenwood var ákærður fyrir tilraun til nauðgunar, fyrir ofbeldisfulla hegðun og fyrir að hafa ráðist á fyrrum kærustu sína, Harriet Robson. Réttarhöld í máli hans áttu að fara fram í nóvember en lögreglan hefur núna ákveðið að fella niður ákærurnar eftir langa rannsókn. Í yfirlýsingu lögreglunnar kom fram að nýjar vendingar hefðu komið fram í málinu sem gerðu það að verkum að ómögulegt væri að ná fram sakfellingu.

Greenwood, sem er 21 árs gamall, lék fyrir Manchester United og enska landsliðið áður en hann var ákærður. Hann þótti einn besti fótboltamaður í heimi.

Neville líkaði við og deildi tísti þar sem var sagt að Greenwood væri saklaus.

Þetta vakti mikla reiði á meðal fólks og var Neville bent á upptökurnar og myndirnar sem komu fram á sjónarsviðið er málið kom fyrst upp. Greenwood væri þess vegna ekki saklaus þó málið hafi verið fellt niður.

Í kjölfarið á viðbrögðum fólks þá ákvað Neville að draga stuðning sinn við tístið til baka. „Þetta var klaufalegt hjá mér þar sem ég fordæmi auðvitað allt ofbeldi gegn konum," segir Neville.