fös 03.feb 2023
Glódís Perla er nýr fyrirliði landsliðsins
Glódís Perla Viggósdóttir.
Glódís Perla Viggósdóttir, varnarmaður Bayern München í Þýskalandi, er nýr fyrirliði kvennalandsliðsins.

Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, gaf þetta út á fréttamannafundi.

Sara Björk Gunnarsdóttir hafði verið fyrirliði liðsins um langt skeið en hún ákvað að hætta með landsliðinu í síðasta mánuði.

„Ég á nóg eftir, en mér finnst þetta rétti tímapunkturinn fyrir mig. Það er langt í næsta stórmót. Ég er búin að vera að slíta mér út í mörg ár, spila í mörg með eymsli eða illt einhvers staðar - með álagstengd meiðsli," sagði Sara um ákvörðun sína.

„Það spilar líka inn í að ég er komin með fjölskyldu og það eru ferðalög og álag með landsliðinu. Það mun ekkert minnka. Ég er að hugsa um að fá meiri tíma með fjölskyldu minni og líka að einblína betur á félagsliðið mitt; vera 100 prósent á þeim stað sem ég er á. Einhvern veginn var maður kannski að halda alltof mörgum boltum á lofti."

Glódís var varafyrirliði liðsins á EM síðasta sumar en þar áður hafði Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir verið með bandið.

Glódís var valin fótboltakona ársins í fyrra en hún átti stórgott ár með bæði landsliðinu og félagsliði sínu.

Hún á að baki 108 A-landsleiki fyrir Íslands hönd.