fös 03.feb 2023
Ronaldo virkar pirraður - Farið illa með tvö góð marktækifæri
Cristiano Ronaldo.
Portúgalska ofurstjarnan Cristiano Ronaldo er enn að leita að sínu fyrsta marki í keppnisleik með Al Nassr í Sádí-Arabíu.

Ronaldo skipti yfir til Al Nassr stuttu eftir að heimsmeistaramótinu í Katar lauk. Hann er launahæsti íþróttamaður sögunnar en hefur ekki enn tekist að skora.

Ronaldo er búinn að spila tvo deildarleiki og einn bikarleik með Al Nassr en hann hefur ekki enn skorað. Það skal þó nefnt að hann skoraði tvö í æfingaleik gegn Paris Saint-Germain.

Hann er þessa stundina að spila gegn Al Fateh í deildinni í Sádí-Arabíu í dag en hann hefur ekki nýtt færin sín vel í leiknum sem er enn í gangi.

Ronaldo fékk dauðafæri í fyrri hálfleik en setti boltann yfir markið. Hann setti líka boltann í slána síðar í leiknum. Hann virkaði pirraður þegar gengið var til búningsklefa en hann bíður enn eftir fyrsta markinu í keppnisleik í Sádí-Arabíu.