fös 03.feb 2023
Araujo fer ekki til Barcelona
Mexíkóski varnarmaðurinn Julian Araujo mun ekki ganga í raðir Barcelona en þetta staðfestir talsmaður alþjóðafótboltasambands, FIFA, við ESPN.

Barcelona reyndi að fá Araujo undir lok gluggans frá Los Angeles Galaxy.

Félagið lagði fram lánstilboð og var allt klappað og klárt, en aðeins átti eftir að senda gögnin í gegnum tölvu. Það kom hins vegar upp bilun í tölvukerfinu sem varð til þess að þau sendust út 18 sekúndum of seint.

Börsungar biðu eftir niðurstöðu frá FIFA vegna málsins og vonaðist eftir því að þetta myndi sleppa, en það gerði það ekki. Araujo verður áfram hjá Galaxy.

Talsmaður FIFA sagði að ekki væri hægt að ganga frá skiptunum þar sem Barcelona skilaði ekki gögnum samkvæmt gildandi reglum sambandsins.