fös 03.feb 2023
England: Markalaust á Stamford Bridge - Mudryk tekinn af velli í hálfleik
Kai Havertz átti ekki sinn besta leik fyrir framan markið
David Datro Fofana klúðraði dauðafæri í síðari hálfleik
Mynd: EPA

Chelsea 0 - 0 Fulham

Chelsea og Fulham gerðu markalaust jafntefli í 22. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld er liðin mættust á Stamford Bridge.

Það var ekki mikið af dauðafærum í leiknum en Chelsea fékk þó tvö góð færi til að skora.

Andreas Pereira átti besta færi Fulham í leiknum er hann lét vaða af 30 metrum en Kepa Arrizabalaga sá við honum. Stuttu áður komst Kai Havertz einn í gegn á móti Bernd Leno en lét verja frá sér. Hann var að vísu rangstæður en átti samt að klára færið.

Havertz átti besta færi Chelsea undir lok fyrri hálfleiks er hann komst aftur einn á móti Leno og í þetta sinn lyfti hann boltanum yfir markvörðinn og í stöng.

Úkraínski vængmaðurinn Mykhailo Mudryk var í byrjunarliði Chelsea í fyrsta sinn síðan hann kom til félagsins en hann gerði lítið sem ekkert á vellinum og var skipt af velli í hálfleik. Noni Madueke kom inn fyrir hann, en hann var keyptur frá PSV í glugganum.

Þegar tuttugu mínútur voru eftir reyndi Aleksandar Mitrovic að skora frá miðju er hann sá að Kepa stóð framarlega. Skotið leit ágætlega út en Kepa var fljótur til baka og tókst að bjarga á síðustu stundu.

Tveimur mínútum síðar reyndi nýjasti leikmaður Chelsea, Enzo Fernandez, skot af löngu færi en boltinn rétt framhjá markinu.

David Datro Fofana kom inná sem varamaður og fékk gullið tækifæri til að tryggja Chelsea sigurinn en hann komst framhjá Leno og var einn gegn opnu marki en skotið var slappt og tókst Tim Ream að koma boltanum frá.

Lokatölur 0-0 á Stamford Bridge. Það mun taka sinn tíma að endurbyggja lið Chelsea og leysa peningar ekki allt á augabragði en liðið er í 9. sæti með 30 stig, níu stigum frá Meistaradeildarsæti.

Fulham er í 6. sæti með 32 stig.