lau 04.feb 2023
Skrifar undir sinn fyrsta samning hjá Víkingi fjórtán ára gamall
Viktor Steinn og Kári Árnason, yfirmaður fótboltamála hjá Víkingi
Viktor Steinn Sverrisson skrifaði undir sinn fyrsta leikmannasamning við Víking á dögunum en hann er aðeins fjórtán ára gamall.

Þessi ungi sóknarmaður kemur úr yngri flokka starfi Víkings en hann spilaði með 4, 3 og 2. flokki félagsins síðasta sumar.

Hann skrifaði á dögunum undir tveggja ára samning við félagið og er samningsbundinn út 2025.

„Viktor er kraftmikill sóknarmaður og mikill markaskorari sem getur leyst allar framliggjandi stöður. Hann er ungur en gríðarlega efnilegur leikmaður sem kemur úr yngri flokka starfi Víkings og bindum við miklar vonir við hann í framtíðinni,“ sagði Kári Árnason, yfirmaður fótboltamála hjá Víkingi um Viktor.