lau 04.feb 2023
Júlli Magg valdi að fara í norsku B-deildina
Með bikarinn eftir sigur á FH síðasta haust.
Júlíus Magnússon, fyrirliði Víkings, er að ganga í raðir Fredrikstad í norsku B-deildinni. Samkvæmt heimildum Fótbolta.net var áhugi á Júlíusi frá Danmörku og frá Ham-Kam í norsku úrvalsdeildinni.

Umboðsmaðurinn Ólafur Garðarson staðfesti við Fótbolta.net að viðræður væru komnar vel á veg og Júlíus færi í læknisskoðun í komandi viku.

Fredrikstad er mikill fótboltabær og er félagið næst sigursælasta félagið í sögu norska boltans. Það er mikill stuðningur á bakvið liðið og er þegar orðið uppselt á fyrsta leik á komandi tímabili, tæplega þrettán þúsund miðar seldir. Rúmlega sextíu ár er frá því liðið vann sinn níunda meistaratitil. Einungis Rosenborg hefur unnið deildina oftar, eða 26 sinnum.

Hjá Fredrikstad er Mikkjal Thomassen þjálfari, tók við liðinu á síðasta ári. Hann var þjálfari KÍ Klaksvíkur síðustu átta árin og var einni umferð frá því að fara með Klaksvík í riðlakeppni í Evrópu. Hann náði að byggja upp rosalega liðsheild.

Það er áhugavert að Júlíus velji að fara í B-deildina í Noregi, taka þá áskorun að hjálpa Fredrikstad upp um deild. Á liðinni leiktíð endaði Fredrikstad í 10. sæti af 16 liðum í B-deildinni. Hann er 24 ára djúpur miðjumaður sem á að baki fimm A-landsleiki.

Markmið Fredrikstad er að fara upp í efstu deild á næstu tveimur árum og í kjölfarið að geta keppt um titla í efstu deild. Júlíus ákvað að taka þátt í þessari vegferð með félaginu.