lau 04.feb 2023
Ítalía: Þórir og Mikael í sigurliðum - Dybala með stoðsendingar
Mynd: Venezia

Þórir Jóhann Helgason fékk að spila síðustu mínútur leiksins í 0-2 sigri Lecce gegn botnliði Cremonese í efstu deild ítalska boltans í dag.Lecce siglir lygnan sjó um miðja deild eftir sigurinn, tíu stigum frá fallsvæðinu. Cremonese er á botninum með 8 stig úr 21 leik.

Roma lagði þá Empoli að velli með tveimur mörkum snemma leiks eftir hornspyrnur frá Paulo Dybala. Empoli menn áttu í miklum vandræðum með föst leikatriði Rómverja og voru heimamenn í Róm óheppnir að bæta ekki fleiri mörkum við, þar sem Tammy Abraham klúðraði meðal annars ótrúlegu dauðafæri.

Cremonese 0 - 2 Lecce
0-1 Federico Baschirotto ('58 )
0-2 Gabriel Strefezza ('69 )

Roma 2 - 0 Empoli
1-0 Roger Ibanez ('2 )
2-0 Tammy Abraham ('6 )

Í B-deildinni spilaði Mikael Egill fyrstu 75 mínúturnar í flottum sigri Venezia á útivelli gegn Benevento. Mikael Egill átti flottan leik í gífurlega mikilvægum sigri í fallbaráttunni, þar sem Feneyingar eiga 24 stig eftir 23 umferðir.

Hjörtur Hermannsson var þá ónotaður varamaður í 0-1 tapi Pisa gegn Sudtirol. Pisa er aðeins með tvö stig úr síðustu fjórum leikjum og á í hættu á að dragast afturúr í umspilsbaráttunni.

Til gamans má geta að aðeins fimm stig skilja fallbaráttuna að frá umspilsbaráttunni í afar spennandi Serie B deild.

Benevento 1 - 2 Venezia

Pisa 0 - 1 Sudtirol