sun 05.feb 2023
Harpa Sól og Lovísa María í Fjölni (Staðfest)

Fjölnir er búið að klófesta tvo nýja leikmenn til að styrkja sig fyrir átök sumarsins í 2. deild kvenna. Fjönir fékk aðeins fjögur stig í Lengjudeildinni og féll því niður í 2. deildina.Félagið er búið að krækja í Hörpu Sól Sigurðardóttur aftur eftir að hún reyndi fyrir sér með yngri flokkum Breiðabliks, FH og Vals. Harpa er fædd 2004 og uppalin hjá Fjölni en spilaði sína fyrstu leiki með meistaraflokki félagsins í Reykjavíkurmótinu á dögunum. 

Hún er fjölhæfur miðjumaður sem gerir tveggja ára samning við félagið, rétt eins og Lovísa María Hermannsdóttir sem kemur úr röðum FH.

Lovísa er fædd 2001 og lék með ÍH í 2. deildinni á síðustu leiktíð. Hún spilar sem hægri bakvörður og hefur einu sinni komið við sögu með meistaraflokki FH í efstu deild.

Fjölnir ætlar sér beint aftur upp í Lengjudeildina eftir fallið í fyrra og gætu Harpa og Lovísa spilað stóran þátt í sumar.