mán 06.feb 2023
Zaniolo búinn að samþykkja samning í Tyrklandi

Nicoló Zaniolo er á leið til Galatasaray í Tyrklandi. Leikmaðurinn er búinn að komast að samkomulagi við félagið um launamál og á Galatasaray því einungis eftir að ná samkomulagi við Roma um kaupverð.Fabrizio Romano greinir frá þessu. Hann segir að Zaniolo sé búinn að samþykkja samningstilboð og að viðræður um kaupverð séu komnar á góðan veg.

Talið er að Galatasaray þurfi að greiða í heildina um 30 milljónir evra til að kaupa Zaniolo. 

Roma samþykkti 30 milljón evru boð frá Bournemouth í leikmanninn í janúar en Zaniolo neitaði að setjast niður með stjórnendum félagsins til að hefja viðræður, þrátt fyrir að hafa beðið um að vera seldur frá Roma.

Þetta vakti mikla reiði meðal stjórnenda Roma og þjálfarans Jose Mourinho sem ákváðu að frysta Zaniolo úr hópnum í refsingarskyni. Hann æfir einn síns liðs og á enga framtíð hjá Roma þar sem stuðningsmenn félagsins hafa einnig snúist gegn honum.

Eftir þessa atburðarás skipti Zaniolo um skoðun og vildi ganga í raðir Bournemouth en enska úrvalsdeildarfélagið vildi ekki lengur fá hann til sín eftir þessa hegðun.