mán 06.feb 2023
[email protected]
KSÍ gerir fimm ára samning við SoGreen
 |
 |
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
|
 |
Mynd: SoGreen
|
 |
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
|
KSÍ er búið að gera fimm ára samning við íslenska nýsköpunarfyrirtækið SoGreen varðandi kaup á kolefniseiningum.
Sprotafyrirtækið er að hefja framleiðslu á nýrri tegund af kolefniseiningum sem myndast með því að tryggja stúlkum í lágtekjuríkjum menntun. SoGreen er að gera frábæra hluti og hefur hlotið fjölda sjálfbærni- og frumkvöðlastyrkja frá íslenskum fyrirtækjum auk þess að hafa hlotið styrk Tækniþróunarsjóðs árið 2021. Af vefsíðu KSÍ: 200 stúlkum tryggð menntun
Fyrsta verkefni SoGreen hefst nú í janúar í samstarfi við hjálparsamtökin FAWE í Sambíu og felur í sér að tryggja um 200 stúlkum í Monze-héraði fulla fimm ára gagnfræðiskólamenntun. Kolefniseiningarnar myndast við þá forðun í losun gróðurhúsalofttegunda sem verður þegar stúlkum er tryggð menntun, en menntun er ein áhrifaríkasta leiðin til þess að fyrirbyggja barnahjónabönd og þungun táningsstúlkna sem knýja mikinn hraða fólksfjölgunar í fátækum samfélögum í framlínunni í baráttunni við loftslagsvána. Það skal þó tekið fram að kolefnisspor fólks í lágtekjuríkjum er margfalt minna en fólks í hátekjuríkjum þar sem losun gróðurhúsalofttegunda er langmest.
Kolefniseiningarnar verða virkar þegar verkefninu er lokið og forðunin hefur raungerst. Forðunin er aðeins reiknuð til 50 ára þrátt fyrir að hún aukist í raun út í hið óendanlega, eftir því sem fleiri kynslóðir koma til sögunnar. Verkefnið sjálft tekur hins vegar aðeins fimm ár og er því stefnt á að sækja um vottun þess strax eftir fimm ár, enda verður losunin þá þegar fyrirbyggð þegar stúlkurnar hafa lokið gagnfræðaskólamenntun sinni.
Vísindin að baki loftslagslausninni menntun stúlkna í lágtekjuríkjum eru ekki ný af nálinni og hafa t.a.m. skýrslur milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) bent á þann stóra þátt sem menntunarstig kvenna (e. female educational attainment) spilar í framtíðarlosun mannkyns. Drawdown, alþjóðleg samtök loftslagsvísindafólks benda jafnframt á að menntun stúlkna er meðal áhrifaríkustu loftslagslausna heims. Umhverfismál og sjálfbærni innan KSÍ
Í opinberri stefnu KSÍ um samfélagsleg verkefni eru umhverfismál og sjálfbærni (innan KSÍ) einn flokkur um möguleg verkefni. Um þann flokk segir: „Uppbygging „grænnar“ menningar á vinnustaðnum KSÍ með þátttöku alls starfsfólks. Unnið verður markvisst að því að taka „græn skref“ í átt að sjálfbærari vinnustað.“
Því er KSÍ sérstaklega stolt af samstarfinu við SoGreen sem mun ýta enn frekar undir umhverfismál og sjálfbærni á vinnustaðnum.
„Við hjá KSÍ hlökkum mjög til samstarfsins við SoGreen og erum afskaplega ánægð með samninginn. Við höfum um nokkurt skeið leitað leiða til að vera virkari í loftslagsmálum og kolefnisjöfnun og líst mjög vel á þá leið að styðja við menntun stúlkna þar sem þörfin er mikil. Við ættum öll, sem samfélag, að taka skref í átt að samfélagslegri ábyrgð og öll skref telja í baráttunni við loftslagsvána," sagði Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ.
„Við í SoGreen erum KSÍ afskaplega þakklátar og hlökkum mikið til samstarfsins næstu fimm árin. SoGreen hóf þessa vegferð vegna þess að okkur finnst sárlega vanta áherslu á loftslagsréttlæti í loftslagsaðgerðum vesturlanda. Við erum mikið bara að vinna í okkar eigin bakgarði, sem er jú nauðsynlegt. En, við verðum líka að horfa á stóru myndina og veita miklu meira fjármagni í aðgerðir sem gagnast þeim samfélögum sem þegar eru að berjast við loftslagsvána. Berskjölduðum samfélögum í lágtekjuríkjum sem síst hafa til þess unnið," segir Guðný Nielsen hjá SoGreen.
|