mið 08.feb 2023
[email protected]
Emírinn í Katar sagður á bak við fyrirhugað tilboð í Man Utd
 |
Infantino, forseti FIFA, með emírnum í Katar. |
Emírinn í Katar, Tamim bin Hamad Al Thani, er sagður vera á bak við áhuga Katara á að kaupa Manchester United. Guardian segir að hann verðmeti félagið á 4,5 milljarða punda en Glazer bræður eru hinsvegar með 6 milljarða punda verðmiða.
Franska stórliðið Paris Saint-Germain er í eigu ríkisstjórnar Katar og það flækir málin. Samkvæmt reglum UEFA mega félög í sömu eigu ekki mætast í sömu keppni.
Manchester United og PSG gætu þar af leiðandi ekki mæst í Meistaradeildinni.
Katarar eru meðvitaðir um þessar reglur en eru að leita að lausnum. Talað er um að þeir gætu reynt að fá UEFA til að skoða möguleika á að gera breytingar á reglugerð sinni.
Hinir bandarísku Glazer bræður hyggjast selja United og vilja fá staðfest tilboð um miðjan mánuðinn. Katarar telja að 4,5 milljarður punda sé sanngjarnt verð fyrir United.
Nýlega staðfesti breski milljarðamæringurinn Sir Jim Ratcliffe að hann myndi gera tilboð í Manchester United en hann er stuðningsmaður liðsins frá æsku.
|