lau 18.mar 2023
[email protected]
Ákvörðun varðandi Saliba verður tekin á síðustu stundu
William Saliba, varnarmaður Arsenal, meiddist í leiknum gegn Sporting Lissabon á fimmtudeginum síðasta en Arsenal féll þá úr leik í Evrópudeildinni eftir vítaspyrnukeppni.
Saliba og Takehiro Tomiyasu þurftu báðir að yfirgefa völlinn í fyrri hálfleiknum vegna meiðsla og þá voru nokkrir leikmenn Arsenal farnir að fá krampa og stífna upp í framlengingunni.
Tomiyasu missir af leiknum gegn Crystal Palace á morgun í ensku úrvalsdeildinni en hann meiddist á hné og þurfti að notast við hækjur eftir leik. Mikel Arteta, stjóri Arsenal, sagði að meiðslin gætu verið alvarleg.
Saliba fann fyrir verkjum í bakinu og gat ekki haldið leik áfram. Arsenal mun taka ákvörðun með hann á allra síðustu stundu fyrir leikinn gegn Palace. Frakkinn hefur verið í byrjunarliðinu í öllum leikjum Arsenal í deildinni á þessari leiktíð með Gabriel sér við hlið í hjarta varnarinnar.
Ef Arsenal vinnur leikinn á morgun þá fer liðið með átta stiga forskot á toppi deildarinnar inn í landsleikjahléið.
|