sun 19.mar 2023
[email protected]
Varane ekki í leikmannahópi Man Utd í dag
Franski varnarmaðurinn Raphael Varane verður ekki í leikmannahópi Manchester United sem mætir Fulham í átta liða úrslitum enska bikarsins í dag.
Varane hefur staðið sig mjög vel í treyju Man Utd í vetur en hann og Lissandro Martinez hafa myndað sterkt miðvarðarpar.
Ekki er komið í ljós hvort kappinn á við meiðsli að stríða en hann var á varamannabekknum í 0-1 sigri United á Real Betis á fimmtudeginum í Evrópudeildinni. Þá spilaði Harry Maguire við hlið Martinez í vörninni.
Varane spilaði allan leikinn í hjarta varnarinnar í markalausa jafnteflinu gegn Southampton um síðustu helgi í deildinni en ljóst er að hann mun missa af leiknum í dag.
Þá er Casemiro í leikbanni en hann mun missa af næstu fjórum leikjum liðsins. Alejandro Garnacho er þá meiddur og Scott McTominay er tæpur fyrir leikinn sem hefst klukkan 16:30.
|