sun 19.mar 2023
[email protected]
Danmörk: Hákon skoraði í sigri FCK - Alfreð á skotskónum en Sævar Atli meiddist
 |
Hákon Arnar. |
 |
Alfreð og Kolbeinn. |
Mynd: Getty Images
|
22 umferðin var spiluð í dönsku úrvalsdeildinni í dag en þetta var síðasta umferðin í venjulega fyrirkomulaginu. Nú mun deildin skiptast í tvennt þar sem efri hlutinn mun spila innbyrðis og sá neðri.
Mikið var af Íslendingum í eldlínunni en Hákon Arnar Haraldsson skoraði fyrra mark FCK í 2-1 sigri á Viborg. FCK er í öðru sæti deildarinnar, einu stigi á eftir Nordsjælland en toppliðið vann Bröndby með tveimur mörkum gegn einu.
Ísak Bergmann Jóhannesson var ekki í leikmannahópi FCK í leiknum í dag.
Mikael Anderson var í byrjunarliðinu hjá AGF og spilaði hann 78. mínútur. AGF vann OB 1-0 en Aron Elís Þrándarson kom inn af bekknum hjá gestunum á 67. mínútu. AGF er í fjórða sæti deildarinnar og spilar því í efri hlutanum en Odense hafnar í því níunda.
Freyr Alexandersson og lærisveinar hans í Lyngby gerðu 1-1 jafntefli gegn Horsens. Alfreð Finnbogason hélt áfram að skora en hann kom Lyngby yfir á 24. mínútu leiksins. Nokkrum mínútum áður þurfti Sævar Atli Magnússon að fara meiddur af velli en hann fékk þá þungt höfuðhögg.
Spurning hvort að landsleikirnir gætu verið í hættu hjá Sævari en það verður að koma í ljós. Horsens jafnaði metin í síðari hálfleiknum og lauk leiknum með 1-1 jafntefli. Kolbeinn Finnsson spilaði allan leikinn en Alfreð var tekinn útaf í uppbótartímanum.
Hjá Horsens þurfti Aron Sigurðarson að fara meiddur af velli í upphafi síðari hálfleiksins. Liðin munu mætast aftur en þau eru bæði í neðri hlutanum. Lyngby er í næst neðsta sæti deildarinnar á meðan Horsens er einu sæti ofar.
Þá gerðu Silkeborg og Midtjylland 3-3 jafntefli en Elías Rafn Ólafsson var ekki í leikmannahópi Midtjylland.
|