Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   þri 12. júní 2007 10:00
Magnús Már Einarsson
Landsbankadeild: Leikmaður 5.umferðar - Jón Vilhelm (ÍA)
Jón Vilhelm með boltann í leiknum gegn KR.
Jón Vilhelm með boltann í leiknum gegn KR.
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Jón Vilhelm í baráttu við Rúnar Kristinsson.
Jón Vilhelm í baráttu við Rúnar Kristinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Fótbolti.net hefur í sumar valið leikmann umferðarinnar í efstu þremur deildum karla. Fimmtu umferðinni í Landsbankadeild karla lauk á sunnudaginn. Þá unnu Skagamenn sinn fyrsta sigur í sumar þegar þeir sigruðu KR 3-1 á heimavelli. Jón Vilhelm Ákason lagði upp tvö mörk og lék vel með ÍA í þeim leik en hann er leikmaður 5.umferðarinnar á Fótbolta.net.

Jón Vilhelm Ákason
Jón Vilhelm Ákason er tvítugur miðjumaður sem hefur leikið með meistaraflokki ÍA undanfarin þrjú ár en hann hefur skorað eitt mark í fyrstu fimm leikjum Lansdbankadeildarinnar í ár. Jón Vilhelm sem á tvo leiki að baki með U-19 ára landsliði Íslendinga hefur einnig orðið nokkrum sinnum Íslandsmeistari með ÍA í yngri flokkunum. Hann hefur alls skorað tvö mörk í 35 leikjum í efstu deild á ferlinum.
,,Þetta gekk mjög vel, allt liðið spilaði vel og ég lagði upp tvö mörk sem var þokkalega vel gert hjá mér," sagði Jón Vilhelm ánægður við Fótbolta.net um leikinn gegn KR.

Jón Vilhelm segir það hafa verið skemmtilegt að vinna erkifjendurna í KR. ,,Það er alltaf skemmtilegast að vinna KR, það hefur alltaf verið þannig," sagði Jón Vilhelm.

Þessi efnilegi leikmaður leikur á miðjunni hjá ÍA með Helga Pétri Magnússyni og Bjarna Guðjónssyni. Hann segir gott að spila við þeirra hlið.

,,Helgi Pétur vinnur alla skallabolta og Bjarni er frábær spilari. Það er gott að vera með honum, hann spilar boltanum vel og er eiginlega leiðtoginn í liðinu."

Guðjón Þórðarson tók við ÍA síðastliðið haust og Jón Vilhelm segist hafa lært mikið af honum.

,,Hlaupagetan er mikið meiri, ég er í mikið betra formi og get hlaupið allan leikinn án þess að hafa áhyggjur af því að vera þreyttur. Hann kennir manni líka mikið og maður lærir mikið af honum."

Faðir Jóns er Áki Jónsson vallarstjóri á Akranesi. Jón Vilhelm vinnur einnig á Akranesvelli en hann segist hafa verið alinn upp þar. ,,Ég er alinn upp þar og var alltaf langt fram eftir kvöldi að leika mér á æfingasvæðinu," sagði Jón Vilhelm en lífið hjá fjölskyldu hans hefur snúist mikið um fótbolta.

,,Allar systur mínar hafa verið í fótboltanum og það hafa allir í fjölskyldunni verið í fótbolta."

Eins og hjá flestum knattspyrnumönnum blundar sá draumur hjá Jóni að fara erlendis í atvinnumennsku.

,,Mönnum langar náttúrulega alltaf að fara út og það er vonandi að það gerist einhverntímann. Ef ég held svona áfram þá gerist það vonandi," sagði Jón Vilhelm Ákason, leikmaður 5.umferðar að lokum.

Sjá einnig:
Leikmaður 4.umferðar - Símun Samuelsen (Keflavík)
Leikmaður 3.umferðar - Helgi Sigurðsson (Val)
Leikmaður 2.umferðar - Bjarni Þórður Halldórsson (Víkingi)
Leikmaður 1.umferðar - Matthías Guðmundsson (FH)
Athugasemdir
banner
banner