mið 30. maí 2007 11:34
Magnús Már Einarsson
Landsbankad.: Leikmaður 4.umferðar - Símun Samuelsen (Keflavík)
Símun á sprettinum í leiknum gegn HK.
Símun á sprettinum í leiknum gegn HK.
Mynd: Víkurfréttir/Hilmar Bragi
Símun í leik gegn KR í fyrstu umferð Landsbankadeildarinnar.
Símun í leik gegn KR í fyrstu umferð Landsbankadeildarinnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Símun fagnar eftir að Keflvíkingar urðu VISA-bikarmeistarar á síðasta tímabili.
Símun fagnar eftir að Keflvíkingar urðu VISA-bikarmeistarar á síðasta tímabili.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Fótbolti.net hefur í sumar valið leikmann umferðarinnar í efstu þremur deildum karla. Fjórða umferðin í Landsbankadeild karla fór fram í gær og í fyrradag. Þar átti Símun Samuelsen stórleik með Keflvíkingum þegar þeir unnu HK 3-0 á heimavelli. Símun skoraði eitt mark og olli oft usla í vörn gestanna úr Kópavogi.

Símun Samuelsen
Símun Samuelsen er 22 ára kant og sóknarmaður frá Færeyjum. Hann gekk til liðs við Keflvíkinga sumarið 2005 en áður hafði hann leikið með VB/Sumba í Færeyjum. Símun sem er A-landsliðsmaður hjá Færeyingum á að baki 25 leiki í Landsbankadeildinni og hefur hann skorað sjö mörk í þeim.
Skyldi það hafa komið Símuni á óvart að vera leikmaður umferðarinnar? ,,Ég veit það ekki. Ég sá ekki hina leikina svo ég veit ekki hvernig leikmenn voru þar en það gekk fínt hjá mér og það er fínt að vera valinn leikmaður umferðarinnar," sagði Símun við Fótbolti.net í dag en hann var þá á leið í flug til Færeyja þar sem að hann er að fara að spila landsleiki gegn Ítölum á laugardaginn og Skotum á miðvikudaginn.

Símun átti eins og fyrr segir góðan leik gegn HK þar sem hann spilaði á vinstri kantinum. ,,Það gekk mjög vel í þessum leik og ég spilaði úti á vinstri kantinum þar sem að mér þykir gaman að spila. Það er oft þannig að ef maður byrjar vel þá heldur það áfram út leikinn."

Símun hefur skorað þrjú mörk í fyrstu fjórum leikjunum í Landsbankadeildinni en það eru jafnmörg mörk og hann gerði í 17 leikjum í deildinni í fyrra. Hver skyldi vera ástæðan fyrir þessari auknu markaskorun?

,,Ég veit það ekki. Maður er búinn að þroskast aðeins og búinn að spila hérna í tvö og hálft ár. Maður fær meiri reynslu fyrir framan markið, skorar úr færunum sínum og þarf ekki tíu færi til að skora eitt mark eins og það var kannski í fyrra," sagði Símun en skyldi hann vera betri leikmaður en í fyrra?

,,Kannski ekki betri leikmaður en betri í leikjum hingað til. Ég hef alltaf verið jafngóður leikmaður en ég hef kannski verið betri í leikjum heldur en í byrjun tímabilsins í fyrra. Það eru samt margir leikir eftir og það getur allt gerst. Það er búið að ganga vel í fyrstu fjórum leikjunum og það er fínt," sagði Símun sem kann vel við sig í Keflavík.

,,Mér líkar mjög vel. Fjölskyldan mín er öll hérna í Keflavík, kærastan mín, mamma og pabbi, amma og afi og systkyni mín eru öll hérna."

Keflvíkingar eru í þriðja sæti Landsbankadeildarinnar með sjö stig eftir fjóra leiki. Símun hefði viljað fá eitthvað út úr leik liðsins gegn FH í annarri umferðinni en er að öðru leyti er hann nokkuð sáttur við gengi Keflvíkinga hingað til.

,,Það var gott að vinna á móti KR en við vildum fá eitthvað út úr leiknum gegn FH, eitt stig eða jafnvel meira. Blikaleikurinn var sanngjarnt jafntefli held ég. Þeir klikka á víti en við fengum mörg færi í leiknum þannig að þetta var kannski sanngjarnt."

Eins og fyrr segir er Símun á leið til Færeyja þar sem hann leikur með landsliðinu gegn Ítalíu á laugardaginn og gegn Skotum næstkomandi miðvikudag en báðir leikirnir er í undankeppni EM 2008. Báðir leikirnir eru á heimavelli og Símun hlakkar til að spila þá.

,,Þetta verður bara gaman. Það býst enginn við að við förum að vinna þessa leiki en þetta verður mikil upplifun og skemmtilegt," sagði Símun Samuelsen, leikmaður 4.umferðar í Landsbankadeildinni að lokum við Fótbolta.net.

Sjá einnig:
Leikmaður 3.umferðar - Helgi Sigurðsson (Val)
Leikmaður 2.umferðar - Bjarni Þórður Halldórsson (Víkingi)
Leikmaður 1.umferðar - Matthías Guðmundsson (FH)
Athugasemdir
banner
banner
banner