Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   mán 02. júlí 2007 08:35
Magnús Már Einarsson
1.deild: Leikmaður 8.umferðar - Gunnar Valur (Fjölnir)
Gunnar Valur skallar boltann í leiknum gegn Grindavík.
Gunnar Valur skallar boltann í leiknum gegn Grindavík.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gunnar Valur hafði góðar gætur á Scott Ramsay í leiknum á föstudaginn.
Gunnar Valur hafði góðar gætur á Scott Ramsay í leiknum á föstudaginn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net hefur í sumar valið leikmann umferðarinnar í efstu þremur deildum karla. Gunnar Valur Gunnarsson leikmaður Fjölnis átti stórleik í vinstri bakverði þegar að liðið sigraði topplið Grindavíkur 1-0 á föstudagskvöldið. Hann er leikmaður 8.umferðar í 1.deildinni hér á Fótbolta.net.

Gunnar Valur Gunnarsson
Bakvörðurinn Gunnar Valur Gunnarsson eru uppalinn hjá KA á Akureyri en haustið 2003 gekk hann til liðs við Fjölni. Síðan þá hefur hann verið fastamaður hjá liðinu og leikið alls 78 deildar og bikarleiki. Hann hefur skorað eitt mark í þessum leikjum en það gerði hann í fyrstu deildinni í fyrra þar sem að Fjölnismenn náðu sínum besta árangri frá upphafi eða þriðja sæti.
,,Ég er mjög sáttur við minn leik. Ég fékk það hlutverk að taka (Scott) Ramsay úr umferð og held að ég hafi skilað því hlutverki alveg ágætlega," sagði Gunnar Valur við Fótbolta.net en hann hafði góðar gætur á Ramsay sem hefur verið að leika frábærlega að undanförnu.

Fjölnismenn eru með þrettán stig í fimmta sæti deildarinnar eftir þennan mikilvæga sigur á Grindvíkingum. ,,Við litum á þetta sem mjög mikilvægan leik til að komast aftur í toppbaráttuna," sagði Gunnar Valur en Fjölnismenn stefna á að komast upp í efstu deild í fyrsta skipti í sögu félagsins.

,,Markmiðið hjá okkur er að fara upp, við erum búnir að enda áður í þriðja og fjórða sæti. Við byrjuðum þetta frekar illa en þetta er allt á uppleið og nóg eftir af mótinu þannig að maður er ekkert að stressa sig á því þó að við séum ekki í topp 3 núna."

Í fyrra enduðu Fjölnismenn eins og fyrr segir í þriðja sætinu eftir að hafa barist við HK um annað sætið allt þar til í lokaumferðinni. Gunnar Valur telur Grafarvogsliðið sterkara í ár heldur en í fyrra.

,,Já við erum ungt lið og erum núna árinu eldri. Við erum komnir með breiðari hóp og höfum getað skipt út mönnum í síðustu leikjum. Þetta er mjög góð blanda, ungt og sprækt lið."

Í fyrra var Gunnar Valur fyrirliði en nú hefur Magnús Ingi Einarsson tekið við fyrirliðabandinu. Gunnar Valur segir að það sé í fínu lagi. ,,Maður getur þá einbeitt sér að sjálfum sér og sínum leik."

Í kvöld mæta Fjölnismenn liði Þróttar á útivelli. Þróttarar eru í þriðja sæti en með sigri geta Fjölnismenn komist upp fyrir þá. Þetta er því mikilvægur leikur fyrir Fjölni.

,,Já hann er eiginlega ennþá mikilvægari en síðaðsti leikur. Við mætum stærri liðunum eftir í síðustu fimm leikjunum í fyrri umferðinni, liðunum sem var spáð upp og þetta eru allt sex stiga leikir."

Fleiri áhorfendur eru farnir að mæta á Fjölnisvöll og umjgörðin í kringum liðið er betri en áður. ,,Það er búið að vera að vinna í því að auka umgjörðina í kringum liðið sem er jákvætt og það er skemmtilegra núna en hefur verið. Það eru góðir menn að vinna á bakvið þetta og Káramenn (stuðningsmenn Fjölnis) duglegir og skemmtilegir," sagði Gunnar Valur sem hefur sett sér persónulegt markmið fyrir sumarið.

,,Markmiðið er að skora fleiri mörk en Kristó (Kristófer Sigurgeirsson) gerði í fyrra," sagði Gunnar. Kristófer gerði eitt mark í fyrra en Gunnar hefur ekki náð að skora í fyrstu sjö leikjunum í ár. ,,Það er nóg af leikjum eftir, ég fæ kannski að taka víti í lokin," sagði Gunnar Valur Gunnarsson leikmaður 8.umferðar léttur að lokum við Fótbolta.net.

Sjá einnig:
Leikmaður 7.umferðar - Guðjón Baldvinsson (Stjarnan)
Leikmaður 6.umferðar - Tómas Leifsson (Fjölnir)
Leikmaður 5.umferðar - Ólafur Páll Snorrason (Fjölnir)
Leikmaður 4.umferðar - Andri B. Þórhallsson (Fjarðabyggð)
Leikmaður 3.umferðar - Hreinn Hringsson (Þór)
Leikmaður 2.umferðar - Scott Ramsay (Grindavík)
Leikmaður 1.umferðar - Árni K. Skaftason (Þór)
Athugasemdir
banner
banner
banner