Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mán 09. júlí 2007 08:18
Magnús Már Einarsson
1.deild: Leikmaður 10.umferðar - Dalibor Nedic (Víkingur Ó.)
Nedic í leik gegn Fram á Laugardalsvelli í fyrra.
Nedic í leik gegn Fram á Laugardalsvelli í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nedic í baráttu við Pétur Markan í leik gegn Fjölni í fyrra.
Nedic í baráttu við Pétur Markan í leik gegn Fjölni í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Dalibor hreinsar í burtu í leik gegn Leikni.
Dalibor hreinsar í burtu í leik gegn Leikni.
Mynd: Leiknir.com - Matthías Ægisson
Fótbolti.net hefur í sumar valið leikmann umferðarinnar í efstu þremur deildum karla. Dalibor Nedic var eins og kóngur í ríki sínu í vörn Víkings Ólafsvíkur þegar að liðið sigraði Stjörnuna 1-0 á útivelli síðastliðið föstudagskvöld. Hann er leikmaður tíundu umferðarinnar í fyrstu deild hér á Fótbolti.net.

Dalibor Nedic
Dalibor Nedic er 32 ára bosnískur varnarmaður hjá Víkingi Ólafsvík. Dalibor á sex landsleiki að baki fyrir Bosníu en hann lék með Olimpik, Rudar Kakanj, Brotnjo, Zadar og sterku liði Sarjevo í heimalandinu áður en hann gekk til liðs við Ólafsvíkinga fyrir síðasta tímabil. Dalibor hefur alls leikið 28 leiki fyrir Víkinga í deild og bikar síðan hann kom til félagsins.
,,Við höfum átt góða leiki að undanförnu og allir í liðinu vita hvað við getum gert," sagði Dalibor við Fótbolta.net í gær.

Víkingar unnu Fjarðabyggð síðastliðinn þriðjudag og Stjörnuna á föstudag. Þetta voru tveir fyrstu sigurleikir liðsins á leiktíðinni og með þeim er liðið komið af botninum.

,,Þetta er mjög gott fyrir okkur því við byrjuðum mjög illa á leiktíðinni. Við erum með mjög ungt lið og margir reynslulitlir leikmenn hafa verið að spila. Síðan komu fjórir nýjir leikmenn með meiri reynslu og eftir það erum við hættulegri og spilum sóknarsinnaðari fótbolta."

Á síðustu leiktíð voru Víkingar í fallbaráttu lengi vel. ,,Ég vona að við verðum öruggir á þessu tímabili, við verðum líka að vera heppnir en ég hef trú á liðinu," sagði Nedic sem getur ekki borið liðið í ár saman við liðið í fyrra.

,,Þetta er öðruvísi lið, ég get ekki sagt fyrir um hvort það sé betra eða ekki en það eru nokkrir leikmenn sem eru árinu ríkari hvað reynslu varðar og það er mikilvægt, sérstaklega fyrir unga leikmenn."

Vörnin hjá Víkingum hefur smollið vel saman að undanförnu og hefur liðið haldið hreinu í undanförnum tveimur leikjum. Í byrjun móts hafði varnarleikurinn ekki verið að smella en liðið tapaði meðal annars 8-1 gegn Fjölni.

,,Ég var meiddur í þeim leik og missti af honum en ég horfði á. Svona gerist stundum og ef þú horfir einungis á úrslitin líta þau hræðilega út. Ef þú horfðir á leikinn var þetta ekki svona slæmt, öll skotin þeirra fóru inn. Núna erum við að sýna að við erum með stórt hjarta og þessi leikur er gleymdur og grafinn," sagði Nedic sem kann vel við sig á Íslandi eftir að hafa verið hér í meira en eitt ár.

,,Ísland er mjög sérstakt land, ég hef heimsótt mörg lönd í heiminum og þetta er sérstakt. Þetta hefur verið mjög góð og ný reynsla fyrir mig. Þegar ég kom hingað var birta allan sólarhringinn sem var nýtt fyrir mér sem og það að spila fótbolta í mjög miklum vindi."

,,Ég er ánægður hér, það er skrýtið að vera í litlum stað eins og Ólafsvík því ég kem frá Sarajevo sem er stór borg, höfuðborg heimalands míns en þetta er reynsla og það er fyrir öllu að ég er ánægður,"
bætti Nedic við en ætlar hann að vera áfram hér eftir að tímabilinu lýkur?

,,Ég vil ekki tala um framtíð mína og hver hún verður en ég mun spjalla aftur við formann félagsins, þjálfarann og aðra hjá félaginu eftir leiktíðina. Ég á í mjög góðu sambandi við þá og við munum sjá hvað gerist."

Nedic er einnig að skilja íslensku betur og betur með tímanum. ,,Ég er að læra íslenskuna og ég er farinn að skilja margt í samtölum. Ég þarf að reyna að tala en ég er að læra. Ég á marga vini hérna á Ólafsvík og fólkið hérna er mjög vingjarnlegt og reynir að hjálpa mér. Ég læri meira á hverjum degi og ég ætla mér að læra íslenskuna betur," sagði hinn geðþekki Dalibor Nedic að lokum við Fótbolta.net.

Sjá einnig:
Leikmaður 9.umferðar - Guðjón Baldvinsson (Stjarnan)
Leikmaður 8.umferðar - Gunnar Valur Gunnarsson (Fjölnir)
Leikmaður 7.umferðar - Guðjón Baldvinsson (Stjarnan)
Leikmaður 6.umferðar - Tómas Leifsson (Fjölnir)
Leikmaður 5.umferðar - Ólafur Páll Snorrason (Fjölnir)
Leikmaður 4.umferðar - Andri B. Þórhallsson (Fjarðabyggð)
Leikmaður 3.umferðar - Hreinn Hringsson (Þór)
Leikmaður 2.umferðar - Scott Ramsay (Grindavík)
Leikmaður 1.umferðar - Árni K. Skaftason (Þór)
Athugasemdir
banner
banner