Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fim 19. júlí 2007 16:57
Hafliði Breiðfjörð
1.deild: Leikmaður 11.umferðar - Jósef Jósefsson (Grindavík)
Jósef með boltann í leiknum á laugardag.
Jósef með boltann í leiknum á laugardag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í baráttu við Hafstein Rúnarsson leikmann Reynis Sandgerði í leik liðana fyrr í sumar.
Í baráttu við Hafstein Rúnarsson leikmann Reynis Sandgerði í leik liðana fyrr í sumar.
Mynd: Víkurfréttir - Þorgils
Marki fagnað ásamt Paul McShane.
Marki fagnað ásamt Paul McShane.
Mynd: Þorsteinn G Kristjánsson
Mynd: Fótbolti.net - Bjarni Már Svavarsson
Jósef Kristinn Jósefsson var valinn leikmaður 11. umferðar í 1. deild karla hjá Fótbolta.net en hann átti mjög góðan leik í vörn Grindavíkur sem gerði markalaust jafntefli við Fjarðabyggð á laugardag og var valinn maður leiksins hjá okkur þá.

Jósef Kristinn Jósefsson
Jósef Kristinn Jósefsson er 17 ára gamall vinstri bakvörður sem er uppalinn hjá Grindavík. Jósef steig sín fyrstu skref með meistaraflokki í fyrra þegar hann lék einn leik í Landsbankadeildinni. Í ár hefur þessi efnilegi leikmaður fest sig í sessi í liði Grindavíkur. Jósef hefur leikið bæði með U-17 og U-19 ára landsliði Íslendinga en hann er ennþá gjaldgengur í U-19 ára liðinu..
,,Já ég myndi segja það, það kemur mér mjög á óvart því þessi leikur á móti Fjarðabyggð var ekki eins góður og við ætluðum okkur. En við erum þó í ágætri stöðu núna," sagði Jósef í spjalli við Fótbolta.net aðspurður hvort honum þætti það óvænt að vera valinn leikmaður umferðarinnar.

,,Ég hefði alveg getað gert betur en þetta var ágætisleikur hjá mér persónulega. Samt var ég ekki nógu ánægður með jafntefli. Við vorum miklu betri í þessum leik og áttum að klára þetta bara."

Leikurinn sem fór fram á Grindavíkurvelli á sunnudag endaði með markalausu jafntefli en besta færi leiksins átti Óli Stefán Flóventsson sem var við það að þruma boltanum í markið þegar Orri Freyr Hjaltalín liðsfélagi hans tók af honum boltann og ekkert varð frekar úr því.

Við nýttum ekki færin í þessum leik. Við fengum til dæmis eitt dauðafæri en Orri tók það af Óla Stefáni, það var dauðafæri sem við hefðum kannski átt að klára. Þarna var færið skemmt innan liðsins, það er ekki nógu gott," sagði Jósef í léttum tón.

Jósef hafði ekki spilað mikið með Grindavík fyrir þetta tímabil en er orðinn fastur byrjunarliðsmaður í liðinu og hefur staðið sig með prýði í allt sumar. ,,Það er frábært að hafa byrjað alla leikina nema einn, og þá var ég úti í Noregi með U19 ára landsliðinu," sagði hann. ,,Það er gaman að fá tækifæri og finna að maður hefur traust þjálfarans og hefur fengið að spila alla leikina sem eru búnir í fyrri umferðinni. "

Hann átti þó ekki von á að fá svo mörg tækifæri fyrir tímabilið en aðspurður út í það sagði hann. ,,Nei, sjálfsagt ekki. Ég byrjaði næstum alla leikina á undirbúningstímabilinu svo það hvarflaði alveg að mér að ég myndi fá tækifæri. En ég átti ekki von á að spila hvern einasta leik."

Nú þegar keppni í 1. deild karla er hálfnuð er Grindavík á toppi deildarinnar með 26 stig úr 11 leikjum. 8 leikir hafa unnist, tveir endað með jafntefli og einn tapast. ,,Sumir leikir hafa ekki verið nógu góðir hjá okkur en við erum efstir og það er það sem skiptir máli," sagði Jósef.

Grindavík stendur vel að vígi með að komast upp í Landsbankadeildina að nýju en liðið féll þangað í fyrra haust. Jósef minnir á að mótið sé þó langt frá því að vera búið. ,,Þetta er náttúrulega ekkert búið, fyrri umferðin er bara búin og það er nóg eftir, það eru 11 leikir eftir og seinni umferðin byrjar á morgun," sagði hann. ,,Ég verð klárlega tilbúinn í að spila í Landsbankadeildina ef það gerist."

Milan Stefán Jankovic er þjálfari Grindvíkinga en hann tók við liðinu fyrir þessa leiktíð eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari í fyrra. Hann hefur þó lengi verið hjá Grindavík og Jósef þekkir vel til hans.

,,Janko er náttúrulega frábær þjálfari og það fer enginn ofan af því sem er í liðinu. Það sést best á árangrinum hjá honum," sagði Jósef. ,,Hann hefur af og til þjálfað mig síðan ég var í fjórða flokk. Hann þjálfaði mig allan fjórða flokkinn og svo þjálfaði hann mig í öðrum flokknum. Hann hefur þjálfað mig nokkuð lengi og hefur kennt mér margt."

Jósef hefur átt sæti í U19 ára landsliði Íslands og í október fer liðið til Englands og leikur þar í undankeppni Evrópumótsins 2008. Með íslenska liðinu í riðli eru heimamenn í Englandi, Belgía og Rúmenía.

,,Mér líst nokkuð vel á þetta," sagði Jósef. ,,Við erum í erfiðum riðli með Englandi og fleiri sterkum liðum. Riðillinn er nokkuð sterkur og það verður mjög erfitt að komast upp úr honum. Við gerum okkar besta og svo kemur í ljós hvað verður."

Jósef hefur vakið athygli erlendra liða og þrjú félög hafa fengið hann til sín á reynsluæfingar. Hann hefur æft hjá AZ Alkmaar í Hollandi, farið tvívegis til Esjberg í Danmörku og einnig til AGF í Danmörku.

,,Það er miklku meira tempó úti," sagði Jósef. ,,Baráttan er alveg sú sama og hérna en tæknin og hraðinn og allt það er meira úti. Það er miklu sterkara að vera úti en hérna heima. Mér fannst AZ Alkmaar standa uppúr af þessum liðum. Astæðurnar voru klassi og það var mjög svekkjandi að fá ekki samning þar."

Síðari hluti 1. deildarinnar hefst á morgun þegar Grindavík fær Stjörnuna í heimsókn á Grindavíkurvöll en leikurinn hefst klukkan 20:15. ,,Nú er bara að klára tímabilið með Grindavík og reyna að klára það með sóma," sagði Jósef að lokum.

Sjá einnig:
Leikmaður 10.umferðar - Dalibor Nedic (Víkingur Ólafsvík)
Leikmaður 9.umferðar - Guðjón Baldvinsson (Stjarnan)
Leikmaður 8.umferðar - Gunnar Valur Gunnarsson (Fjölnir)
Leikmaður 7.umferðar - Guðjón Baldvinsson (Stjarnan)
Leikmaður 6.umferðar - Tómas Leifsson (Fjölnir)
Leikmaður 5.umferðar - Ólafur Páll Snorrason (Fjölnir)
Leikmaður 4.umferðar - Andri B. Þórhallsson (Fjarðabyggð)
Leikmaður 3.umferðar - Hreinn Hringsson (Þór)
Leikmaður 2.umferðar - Scott Ramsay (Grindavík)
Leikmaður 1.umferðar - Árni K. Skaftason (Þór)
Athugasemdir
banner
banner
banner