Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   þri 24. júlí 2007 16:19
Magnús Már Einarsson
1.deild: Leikmaður 12.umferðar - Gunnar Már Guðmunds (Fjölnir)
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Miðjumaðurinn Gunnar Már Guðmundsson lék frábærlega í 8-0 sigri Fjölnis á Reyni Sandgerði í tólftu umferð fyrstu deildarinnar. Gunnar Már skoraði fjögur mörk á 17 mínútna kafla í leiknum og lagði að auki upp tvö mörk en hann er leikmaður 12.umferðar í fyrstu deildarinnar hér á Fótbolti.net.

Gunnar Már Guðmundsson
Miðjumaðurinn Gunnar Már Guðmundsson er uppalinn hjá Fjölni og hefur leikið með liðinu alla tíð. Gunnar hefur leikið með liðinu í þriðju, annarri og fyrstu deild en hann hóf meistaraflokksferil sinn árið 2001. Gunnar hefur skorað 15 mörk í 110 leikjum fyrir Fjölni en níu af mörkunum hefur hann gert í fyrstu deildinni í sumar.
,,Þetta var fínn seinni hálfleikur og gott korter þar, það datt bara allt inn," sagði Gunnar Már við Fótbolta.net í dag en Fjölnismenn hefndu með sigrinum fyrir 3-0 tap gegn Reyni í fyrstu umferð mótsins.

,,Þetta var sérstaklega sætt þar sem að ég var rekinn út af eftir tuttugu mínútur í fyrri leiknum. Það var sérstaklega gaman að hefna fyrir það svona, skora fjögur mörk og leggja upp tvö, það er ekki leiðinlegt."

Fjölnismenn hafa leikið vel að undanförnu og sitja nú í þriðja sæti deildarinnar þrátt fyrir að hafa byrjað illa og náð í einungis eitt stig í fyrstu þremur leikjunum.

,,Í fyrsta leiknum fengum við brottvísun eftir tuttugu mínútur sem var mér að kenna. Í öðrum leiknum yfirspiluðum við Fjarðabyggð en þeir skoruðu í lokin. Við vorum ekki að spila neitt illa en úrslitin féllu okkur ekki í hag."

Atli Viðar Björnsson, Heimir Snær Guðmundsson og Ólafur Páll Snorrason komu allir til Fjölnis á láni frá FH eftir þrjár umferðir.

,,Koma Atla, Heimis og Óla styrktu hópinn, æfingarnar og allt gríðarlega. Þeir eru náttúrulega búnir að spila mjög vel það sem þeir eru búnir að spila," sagði Gunnar Már sem er næstmarkahæstur í fyrstu deildinni sem stendur með níu mörk en hann skoraði mun minna í fyrra eða tvö mörk.

,,Ég fæ loksins að taka vítin og hef skorað fjögur mörk úr vítum. Ég var búinn að ýja að því að ég ætti að taka þessi víti og beið eftir að Geiri (Ásgeir Aron Ásgeirsson) myndi klikka og hann klikkaði."

,,Síðan er Kristó (Kristófer Sigurgeirsson aðstoðarþjálfari Fjölnis) með mig í auka skallaæfingum, hann er búinn að kenna mér það sem ég kann í því. Þetta var í fyrsta skipti í langan tíma sem ég skoraði með skalla og það komu tvö mörk, aukaæfingarnar hjá Kristó voru að skila sér vill hann meina."


Fjölnismenn hafa skorað langflest mörk í fyrstu deildinni í sumar eða 35 talsins og hafa 14 leikmenn liðsins komist á blað. Gunnar gæti vel hugsað sér að leyfa fleirum að freista þess að skora með því að leyfa þeim að taka víti.

,,Ætli ég leyfi ekki Gunnari Val að skora, hann getur aldrei skorað greyið," sagði Gunnar Már léttur í bragði en hann hefur spilað ýmsar stöður á ferlinum.

,,Í yngri flokkunum spilaði ég í vörninni og djúpur á miðjunni til skiptis en núna hef ég verið að spila á miðjunni. Ætli það hafi ekki verið Ási (Ásmundur Arnarson þjálfari Fjölnis) sem fór að færa mig framar. Hann setti mig í senterinn á tímabili í fyrra en ég var ekki að skora þá þannig að það er fínt að vera á miðjunni."

Gunnar lék einnig vel með Fjölni í fyrra og var valinn í lið ársins í fyrstu deildinni. Í kjölfarið sýndu nokkur félög honum áhuga. ,,Það höfðu nokkur lið samband, sjö eða átta lið og flest úr úrvalsdeildinni. Ég benti þeim beint á Fjölni þar sem ég var samningsbundinn," sagði Gunnar sem hefur leikið með Fjölni frá því að liðið sigraði þriðju deildina árið 2001 og hann stefnir á að fara upp í Landsbankadeildina með liðinu.

,Það væri gaman að vera búinn að fara upp allar deildirnar, það er leynt og ljóst búið að vera markmikið hjá manni. Stefnan er sett upp og á markakóngstitilinn, það yrði ekki slæmt," sagði Gunnar Már Guðmundsson leikmaður 12.umferðar að lokum.

Sjá einnig:
Leikmaður 11.umferðar - Jósef Jósefsson (Grindavík)
Leikmaður 10.umferðar - Dalibor Nedic (Víkingur Ólafsvík)
Leikmaður 9.umferðar - Guðjón Baldvinsson (Stjarnan)
Leikmaður 8.umferðar - Gunnar Valur Gunnarsson (Fjölnir)
Leikmaður 7.umferðar - Guðjón Baldvinsson (Stjarnan)
Leikmaður 6.umferðar - Tómas Leifsson (Fjölnir)
Leikmaður 5.umferðar - Ólafur Páll Snorrason (Fjölnir)
Leikmaður 4.umferðar - Andri B. Þórhallsson (Fjarðabyggð)
Leikmaður 3.umferðar - Hreinn Hringsson (Þór)
Leikmaður 2.umferðar - Scott Ramsay (Grindavík)
Leikmaður 1.umferðar - Árni K. Skaftason (Þór)
Athugasemdir
banner
banner