Haaland, Toney, Gomes, Diomande, Gyokeres, Southgate, O'Neil, De Zerbi og fleiri góðir í slúðri dagsins
   lau 02. maí 2009 08:00
Fótbolti.net
Spá fyrirliða og þjálfara í 1.deild karla: 9.sæti
Mynd: Matthías Ægisson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Leiknisvöllur.
Leiknisvöllur.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um fyrstu deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í níunda sætinu í þessari spá var Leiknir R. sem fékk 81 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Leikni.


9.sæti: Leiknir R.
Búningar: Vínrauð/dökkblá treyja, bláar buxur, bláir sokkar.
Heimasíða: http://www.leiknir.com/

Leiknismönnum er spáð í botnbaráttuna þetta tímabilið en liðið hefur misst sterka leikmenn. Helsti markaskorari liðsins síðustu ár, Jakob Spangsberg, er farinn í Víking og fyrirliðinn í fyrra, Vigfús Arnar Jósepsson, ákvað að reyna fyrir sér í úrvalsdeildinni og ganga til liðs við Fjölni. Þá er varnarjaxlinn Einar Pétursson aftur farinn í Fylki eftir að hafa staðið sig vel á lánssamningi hjá Leikni í fyrra. Ljóst er að þetta er blóðtaka fyrir Leikni en leikmannahópur liðsins í sumar er mjög ungur.

Þetta er fjórða árið í röð sem Leiknir leikur í 1. deildinni en það má líkja liðinu við jójó, liðið er nánast óútreiknanlegt. Á góðum degi getur það unnið hvaða mótherja sem er en ef liðið lendir á slæmum degi getur það tapað illa fyrir nánast öllum. Nýr þjálfari liðsins er þó fæddur sigurvegari og mun kannski ná að koma með meiri stöðugleika.

Leiknisliðið hefur verið í fallhættu síðustu tímabil og ljóst að þar er stefnan sett á að breyta því. Tímabilið verður mikil prófraun fyrir þetta unga lið en fyrir skömmu gekk til liðs við félagið Gunnar Einarsson sem er spilandi aðstoðarþjálfari. Reynsla Gunnars ætti að vera liðinu dýrmæt en hann ákvað að taka skóna fram að nýju eftir að hafa lagt þá á hilluna eftir síðasta sumar.

Miðvörðurinn Halldór Kristinn Halldórsson er tekinn við fyrirliðabandinu, 21. árs gamall, en það er lykilatriði fyrir Leikni að hann spili vel og einnig miðjumaðurinn Fannar Þór Arnarsson sem er tvítugur en hann er leikstjórnandinn á miðjunni. Nýtt glæsilegt félagsheimili hefur risið í Breiðholtinu og þá er Leiknir með mjög góðan heimavöll svo það ætti að geta hjálpað.

Leiknir hefur marga spennandi leikmenn sem eru uppaldir hjá félaginu en þar má nefna markvörðinn Eyjólf Tómasson sem nýlega varð tvítugur en hann er orðinn aðalmarkvörður liðsins. Eyjólfur hefur verið einn besti leikmaður liðsins nú á undirbúningstímabilinu. Helsti markaskorarinn er 19 ára gamall, Ólafur Hrannar Kristjánsson, en hann er mjög efnilegur sóknarmaður sem hefur síðustu tvö ár skorað grimmt fyrir KB, varalið Leiknis.

Styrkleikar: Leiknir er fjölskylduklúbbur og mikil samheldni einkennir félagið. Fá lið geta státað af því að spila á jafn mörgum uppöldum leikmönnum og menn þekkja hvern annan vel. Leiknir hefur virkilega spræka kantmenn og getur spilað flottan fótbolta. Heimavöllur Leiknis er sterkur og þar skapast oft virkilega góð stemning.

Veikleikar: Helsti veikleiki Leiknisliðsins er klárlega óstöðugleiki. Það hefur sýnt sig að ef liðið byrjar illa er erfitt fyrir það að vinna sig upp úr því. Leikmannahópurinn er ungur og liðið því nokkuð brothætt. Breiddin í vörn og sókn er ekki mikil og spurning er hvernig liðinu tekst til í markaskorun án Spangsberg.
Þjálfari:
Sigursteinn Gíslason er að stíga sín fyrstu skref sem aðalþjálfari. Sem leikmaður þekkti hann nánast ekkert annað en að vinna og varð níu sinnum Íslandsmeistari með KR og ÍA.

Hann tók síðan að sér aðstoðarþjálfarastöðu hjá Víkingi og hefur síðustu ár getið sér gott orð sem aðstoðarþjálfari KR. Fróðlegt verður að sjá hvort hann komi með sigurhefðina inn í Leikni.


Lykilmenn: Steinarr Guðmundsson, Halldór Kristinn Halldórsson og Fannar Þór Arnarsson.


Komnir: Gunnar Einarsson frá Val, Kristján Páll Jónsson frá Tindastóli, Ólafur Hrannar Kristjánsson frá KB, Óttar Bjarni Guðmundsson frá KB, Brynjar Óli Guðmundsson frá KB.

Farnir: Vigfús Arnar Jósepsson í Fjölni, Jakob Spangsberg í Víking R., Einar Pétursson í Fylki, Sigþór Snorrason í BÍ/Bolungarvík, Sævar Ólafsson í KB.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. Leiknir R. 81 stig
10. Afturelding 61 stig
11. Fjarðabyggð 52 stig
12. Víkingur Ólafsvík 44 stig
banner
banner
banner
banner