Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fös 01. maí 2009 08:00
Fótbolti.net
Spá fyrirliða og þjálfara í 1.deild karla: 10.sæti
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um fyrstu deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í tíunda sætinu í þessari spá var Afturelding sem fékk 61 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Aftureldingu.


10.sæti: Afturelding
Búningar: Rauð treyja, svartar buxur, rauðir sokkar.
Heimasíða: http://www.afturelding.is/

Afturelding hefur endurheimt sæti sitt í 1. deildinni en það verður að teljast fullkomlega eðlilegt að þeim sé spáð basli í sumar af þjálfurum og fyrirliðum. Tíunda sætið er þó öruggt sæti í deildinni og ljóst að markmið sumarsins í Mosfellsbænum verður að halda sér uppi. Liðið er lítið breytt frá því í fyrra þegar það hafnaði í öðru sæti 2. deildarinnar, sautján stigum á eftir ÍR.

Það hefur oft fylgt Aftureldingu að ná góðum úrslitum á undirbúningstímabilinu en svo er ekki raunin að þessu sinni. Liðið tapaði öllum sínum leikjum í Lengjubikarnum og endaði með neikvæða markatölu upp á ellefu mörk. Bölvanlega hefur gengið að styrkja liðið í vetur þrátt fyrir margar tilraunir.

Tómas Joð Þorsteinsson er stærsti bitinn sem er farinn frá liðinu en hann er kominn aftur í Fylki eftir að hafa verið á lánssamningi í Mosfellsbænum í fyrra. Tómas lék fantavel síðasta sumar og var valinn í lið ársins í 2. deild. Í því úrvalsliði voru þrír aðrir leikmenn Aftureldingar en þeir þrír eru hinsvegar allir áfram. Það eru varnarmaðurinn John Andrews og svo Rannver Sigurjónsson og Paul Clapson sem báru uppi sóknarleik liðsins.

Clapson er breskur sóknarmaður sem skoraði grimmt í fyrra en hefur ekki verið í alveg sama stuði í vetur. Það er ansi mikilvægt fyrir Aftureldingu að Clapson verði með markaskóna vel reimaða á komandi sumri. Andrews kom með ákveðna reynslu í liðið sem því skorti og lék vel í vörninni. Þessir leikmenn áttu mjög stóran þátt í því að liðinu tókst að komast upp úr 2. deildinni.

Í fyrra lék liðið heimaleiki sína á gervigrasvelli en í ár mun aðalvöllurinn vera grasvöllur liðsins. Stemningin á heimaleikjum liðsins hefur sjaldan verið jafn mikil og í fyrra og umgjörðin var góð sem og mæting á völlinn. Mikilvægt er fyrir Mosfellinga að reyna að halda þessari góðu stemningu þó að liðið muni leika á grasvellinum í ár.

Styrkleikar: Stemningin í Mosfellsbænum er að aukast samhliða því að fleiri uppaldir leikmenn eru farnir að leika með liðinu en áður fyrr byggðist það algjörlega á aðkomumönnum. Liðið hefur haldið nokkuð veginn sama kjarna og býr yfir góðri samheldni. Sóknarleikurinn ætti að vera í fínu lagi með þá Clapson og Rannver en gríðarlega mikilvægt er að þeir haldist heilir.

Veikleikar: Spurning er hvort leikmannahópurinn sé einfaldlega nægilega sterkur og tilbúinn fyrir 1. deildina. Liðið er með nánast sama hóp og í 2. deild í fyrra og margir leikmenn sem hafa ekki mikla reynslu úr þessari deild. Í fyrra fékk Afturelding á sig fæst mörk allra liða í deildinni en varnarleikurinn hefur alls ekki verið eins traustur í vetur og er það áhyggjuefni fyrir Ólaf þjálfara.

Þjálfari: Ólafur Ólafsson er á sínu fjórða ári með liðið en enginn vafi leikur á því að hann hefur unnið hreint frábært starf fyrir félagið og sýnt mikil klókindi. Þegar hann var endurráðinn í vetur var það gefið út af félaginu að stefnan væri sett á úrvalsdeildina innan fárra ára.

Lykilmenn: John Andrews, Paul Clapson, Rannver Sigurjónsson.


Komnir: Alexander Hafþórsson frá Reyni S., Arnar Harðarson úr Hvíta riddaranum, Axel Lárusson úr Hvíta riddaranum, Kevin Walsh frá KR (á láni), Milan Djurovic úr Hamar.

Farnir: Daði Már Steinsson í Leikni F., Gestur Ingi Harðarson í Fram (var á láni), Gunnar Steinn Ásgeirsson í Berserki, Illugi Þór Gunnarsson í Fjölni (var á láni), Tómas Joð Þorsteinsson í Fylki (var á láni)


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. Afturelding 61 stig
11. Fjarðabyggð 52 stig
12. Víkingur Ólafsvík 44 stig
Athugasemdir
banner
banner