Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 30. apríl 2009 08:00
Fótbolti.net
Spá fyrirliða og þjálfara í 1.deild karla: 11.sæti
Mynd: Fótbolti.net - Sölvi Logason
Mynd: Austurglugginn/Gunnar
Mynd: Austurglugginn/Gunnar
Mynd: Austurglugginn/Gunnar
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um fyrstu deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í ellefta sætinu í þessari spá var Fjarðabyggð sem fékk 52 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Fjarðabyggð


11.sæti: Fjarðabyggð
Búningar: Rauð treyja, dökkbláar buxur, rauðir sokkar.
Heimasíða: http://www.kff.is/

Fjarðabyggð hafnaði í níunda sæti deildarinnar í fyrra eftir að hafa verið spáð því fjórða fyrir mótið. Mikill óróleiki var í herbúðum liðsins og um mitt mót hvarf þjálfari liðsins, Magni Fannberg, á braut en þá sat liðið í áttunda sæti. Þá tók David Hannah við liðinu en hann var ekki með það lengi og Heimir Þorsteinsson stýrði liðinu í lokaleikjunum.

Ef spá þjálfara og fyrirliða gengur eftir þetta árið verður það hlutskipti Fjarðabyggðar að falla úr deildinni. Páll Guðlaugsson er tekinn við liðinu ásamt Heimi og eiga þeir erfitt verkefni fyrir höndum á Austurlandinu. Það er strembið að meta styrkleika liðsins eftir árangri í Lengjubikarnum þar sem liðið hefur tekið þátt í B-deildinni þar til að spara ferðakostnað. Mótherjarnir hafa því allir verið úr neðri deildum en Fjarðabyggð vann þrjá en gerði tvö jafntefli í fimm leikjum sínum í riðlinum.

Fjarðabyggð býr yfir því að hafa nokkra virkilega sterka lykilmenn og ef þeir spila eins og þeir geta best í sumar ætti liðið vel að geta rifið sig frá botnbaráttunni. Lykillinn að velgengninni sumarið 2007 var magnaður varnarleikur með Srdjan Rajkovic í markinu og Hauk Ingvar Sigurbergsson og Andra Hjörvar Albertsson þar fyrir framan. Magni Fannberg gerði tilraunir með að brjóta upp þennan þríhyrning með döprum árangri en þeir eru allir enn til staðar.

Liðið hefur misst nokkra sterka leikmenn. Sveinbjörn Jónasson er farinn til Grindavíkur og þá er Jóhann Ingi Jóhannsson farinn aftur í HK. Síðustu tvö ár hafa mikilvægustu miðjumenn liðsins horfið á braut og er vandséð hvernig það vandamál verður leyst.

Ágúst Örn Arnarsson hefur verið helsti markaskorari liðsins í vetur en hann er aðeins 17 ára gamall og kom á lánssamningi frá Breiðabliki. Hann varð Íslandsmeistari með 2. flokki Blika á síðustu leiktíð en þessi eldsnöggi leikmaður skoraði 6 mörk í 5 leikjum í Lengjubikarnum í vetur. Mikið efni en athyglisvert verður að sjá hvernig honum gengur að glíma við varnarmenn 1. deildarinnar.

Styrkleikar: Líkt og undanfarin ár ætti varnarleikurinn klárlega að vera helsti styrkur Fjarðabyggðar. Liðið er mjög vel mannað í öftustu línu og mikilvægt að sami taktur myndist þar eins og 2007. Liðið hefur virkilega sterkan markvörð, Srdjan Rajkovic, og þá er lið Fjarðabyggðar erfitt heim að sækja. Þjálfarateymi liðsins býr yfir mikilli reynslu og það ætti að geta hjálpað.

Veikleikar: Breiddin er vandamál hjá Fjarðabyggð. Ekki má það við því að missa marga hlekki úr byrjunarliðinu á meiðslalistann. Miðjan er vandamál en þar hafa lykilmenn horfið á braut og virðist fátt um fína drætti. Sóknarleikurinn er einnig spurningamerki en liðinu skortir ákveðna reynslu fram á við og spurning hvort fullmikil ábyrgð sé sett á herðar Ágústar.

Þjálfari: Páll Guðlaugsson og Heimir Þorsteinsson stýra liðinu í sameiningu. Páll er afar reyndur þjálfari sem m.a hefur stýrt landsliði Færeyja og Keflavík og Leiftri í úrvalsdeild hér á landi. Í fyrra þjálfaði hann Leikni Fáskrúðsfirði. Heimir hefur áður þjálfað hjá KFF á árunum 2004-2005. Einnig stýrði Heimir liðinu í þremur síðustu leikjunum á síðasta tímabili.

Lykilmenn: Srdjan Rajkovic, Andri Hjörvar Albertsson og Haukur Ingvar Sigurbergsson.


Komnir: Sigurður Donys Sigurðsson frá Reyni Sandgerði, Ágúst Örn Arnarsson frá Breiðabliki (lán) , Marinó Óli Sigurbjörnsson frá Leikni F. (lán), Ævar Valgeirsson frá Leikni F., Daníel Freyr Guðmundsson frá Fylki (lán), Arnór Egill Hallsson frá KA, Haraldur Bergvinsson frá Fjölni.

Farnir: Sveinbjörn Jónasson í Grindavík, Vilberg Marinó Jónasson í Leikni F., Pétur Geir Svavarsson í BÍ/Bolungarvík, Jóhann Ingi Jóhannsson til HK, Aleksander Konjanovski til Svíþjóðar, Viktor Már Jónasson í Dalvík/Reynir, David Hannah til Skotlands, Guðmundur Atli Steinþórsson.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ?
11. Fjarðabyggð 52 stig
12. Víkingur Ólafsvík 44 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner