Man Utd hefur áhuga á Yoro - Osimhen í forgangi hjá Chelsea - Napoli, Juve og Atletico hafa áhuga á Greenwood
banner
   fim 02. maí 2024 14:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Spáin fyrir 3. deild: Fyrri hluti (7. - 12. sæti)
Sam Hewson ætti að vera ansi góður í 3. deild.
Sam Hewson ætti að vera ansi góður í 3. deild.
Mynd: KFK
Jón Páll Pálmason, þjálfar ÍH. Skemmtilegur karakter.
Jón Páll Pálmason, þjálfar ÍH. Skemmtilegur karakter.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ásgeir Frank Ásgeirsson tók við Hvíta riddaranum í vetur.
Ásgeir Frank Ásgeirsson tók við Hvíta riddaranum í vetur.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Nikola Dejan Djuric skipti yfir í Hvíta og verður þar lykilmaður.
Nikola Dejan Djuric skipti yfir í Hvíta og verður þar lykilmaður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristinn Justiniano Snjólfsson er lykilmaður í Sindra.
Kristinn Justiniano Snjólfsson er lykilmaður í Sindra.
Mynd: Fótbolti.net - Benóný Þórhallsson
Vængir Júpiters unnu 4. deildina í fyrra.
Vængir Júpiters unnu 4. deildina í fyrra.
Mynd: Aðsend
Siggi Bond snýr aftur í boltann eftir að hafa verið í banni í fyrra.
Siggi Bond snýr aftur í boltann eftir að hafa verið í banni í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Búi Vilhjálmur Guðmundsson, þjálfari KFK.
Búi Vilhjálmur Guðmundsson, þjálfari KFK.
Mynd: Hulda Margrét
Elliða er spáð neðsta sæti deildarinnar.
Elliða er spáð neðsta sæti deildarinnar.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Jakob Leó Bjarnason, þjálfari Elliða.
Jakob Leó Bjarnason, þjálfari Elliða.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Keppni í 3. deild karla hefst á föstudaginn með tveimur leikjum. Við fengum alla þjálfara í deildinni til að skila inn spá fyrir stuttu. Þeir voru beðnir að raða liðunum niður 1-11 í spá og slepptu sínu liði. Við byrjum á að fara yfir liðin sem enduðu í neðri hlutanum í þessari spá þjálfara deildarinnar.

7. sæti: ÍH (50 stig)
Lokastaða í fyrra 10. sæti í 3. deild
ÍH er núna á leið inn í sitt fjórða tímabil í röð í 3. deild en liðið hefur endað í tíunda sæti og rétt náð að bjarga sér síðustu þrjú tímabil. Jón Páll Pálmason tók við þjálfun liðsins í vetur en hann þekkir flesta leikmenn liðsins afar vel eftir að hafa þjálfað þá í yngri flokkum FH. ÍH samanstendur langmest af leikmönnum sem eiga það sameiginlegt að hafa verið í FH á einhverjum tímapunkti. Það hefur myndast stemning í kringum ÍH á síðustu vikum þar sem liðið er komið í 16-liða úrslit Mjólkurbikarsins og mætir þar Fram. Þjálfarar í deildinni hafa meiri trú á liðinu í ár og er þeim spáð sjöunda sæti. Hver veit, kannski ná þeir að enda ofar en í tíunda sæti þetta árið?

Lykilmenn: Arnar Sigþórsson, Andri Jónasson og Brynjar Jónasson.

Fylgist með: Dagur Óli Grétarsson (fæddur árið 2005).

Þjálfarinn segir - Jón Páll Pálmason
„Það verður geggjað gaman hjá okkur. Við vorum í gær (gegn Höfnum í Mjólkurbikarnum) með ellefu FH-inga í liðinu, sjö á bekknum og liðsstjórnin öll FH-ingar. Hákon Gunn var fyrirliði hjá mér í gær því Arnar (Sigþórsson) var meiddur, og hann var líka fyrirliði hjá mér á Lottó-mótinu á Akranesi árið 2005 þegar hann var sex ára. Þetta eru allt strákar sem ég hef þjálfað og farið með á Akranes, Eyjar, Akureyri, Gothia Cup í Svíþjóð og núna í meistaraflokki. Þetta er sennilega skemmtilegasta verkefni sem ég hef tekið að mér og ég elska þetta gigg."

„Við erum með þrjú markmið: Eitt er búið að nást og það var að fá stórlið í bikar. Fram er náttúrulega stórlið í íslenskum íþróttum. Markmið tvö er að fara á Laugardalsvöll og við eigum tvo möguleika, annars vegar í þessari keppni og svo í Fótbolti.net bikarnum. Svo er ég eins og allir aðrir mikill keppnismaður og auðvitað ætlum við að reyna að fara upp um deild. Við erum með þrusulið."

8. sæti: Hvíti riddarinn (48 stig)
Lokastaða í fyrra: 9. sæti í 3. deild
Hvíta riddaranum var í fyrra spáð neðsta sæti 3. deildar og það kannski skiljanlega þar sem þeir komu upp í deildina seint eftir að það varð ljóst að Kórdrengir yrðu ekki með í Íslandsmótinu. Þeir voru langneðstir í spánni, en Mosfellingar gerðu vel með því að enda tveimur stigum fyrir ofan fallsvæðið og er þeim spáð fínu gengi í sumar undir stjórn nýja þjálfarans, Ásgeirs Franks Ásgeirssonar, í sumar. Hann lék með Aftureldingu í fyrra en hefur núna ákveðið að snúa sér að þjálfuninni. Það er alltaf mikil stemning hjá Hvíta riddaranum og það verður erfitt að heimsækja þá í Mosfellsbæinn.

Lykilmenn: Loic Ondo, Jökull Jörvar Þórhallsson og Nikola Dejan Djuric

Fylgist með: Trausti Þráinsson (fæddur 2005)

Þjálfarinn segir - Ásgeir Frank Ásgeirsson
„Ég held að spáin sé nokkuð sanngjörn svona miðað við hvar við enduðum í fyrra og hvernig undirbúningstímabilið hefur verið. Markmiðið okkar er klárlega að enda ofar en spáin segir. Þetta er jöfn og sterk deild og við getum unnið öll liðin í þessari deild á okkar degi."

9. sæti: Sindri (45 stig)
Lokastaða í fyrra: 11. sæti í 2. deild
Sindri féll úr 2. deild í fyrra og það var nokkuð sannfærandi. Þeir náðu aldrei góðum takti og óhætt að skrá sumarið niður sem mikil vonbrigði. Sindra var spáð fimmta sæti fyrir tímabilið en það gekk lítið sem ekkert upp hjá þeim. Óli Stefán Flóventsson hætti með Sindra að tímabilinu loknu en hann hafði farið í pásu um mitt sumar þar sem hann var ósáttur við það hvernig bæjarfélagið hafði verið að standa sig gagnvart félaginu. Sindri tapaði öllum sínum leikjum í Lengjubikarnum í vetur og þjálfarar í deildinni spá því að liðið muni enda í neðri hluta 3. deildar í sumar.

Lykilmenn: Kristinn Justiniano Snjólfsson, Ivan Paponja og Abdul Bangura.

Fylgist með: Birkir Snær Ingólfsson (fæddur 2004)

Þjálfarinn segir - Jón Karlsson
„Ég held að spáin komi svo sem ekki mikið á óvart, sérstaklega í ljósi þess hvað það hafa orðið miklar breytingar á hópnum sem spilaði í 2. deildinni í fyrra. Tekin var meðvituð ákvörðun um að byggja upp lið á þeim efnivið sem til staðar er á Hornafirði í bland við reynslumeiri leikmenn. Hópurinn er því að stórum hluta byggður á strákum á 2. fl. aldri og ljóst að margir þeirra munu fá hlutverk í liðinu og mikilvægar mínútur í sumar. Við viljum búa til leið fyrir unga leikmenn inn í meistaraflokksbolta hérna fyrir austan. Við erum spenntir fyrir sumrinu og förum inn í það fullir sjálfstrausts og með kassann úti."

10. sæti: Vængir Júpiters (43 stig)
Lokastaða í fyrra: 1. sæti í 4. deild
Vængjum var í fyrra spáð fimmta sæti fyrir 4. deildina í fyrra en þeir gerðu afar vel og unnu deildina bara. Því er spáð núna að liðið muni halda sér uppi í 3. deildinni en það er skemmtilegt verkefni í gangi þarna í Grafarvoginum. Hópurinn samanstendur af Fjölnismönnum, mjög ungum strákum og aðeins eldri leikmönnum líka. Það er svo sannarlega hjarta í þessu liði og verður gaman að sjá hvort spáin muni rætast, og þeir haldi sér uppi.

Lykilmenn: Atli Fannar Hauksson, Daníel Smári Sigurðsson og Aron Heimisson.

Fylgist með: Anton Breki Óskarsson (fæddur 2005)

Þjálfarinn segir - Kristinn Jóhann Laxdal
„Sem nýliðar í deildinni er tíunda sæti bara gott. Varðandi okkar markmið ætlum við bara að halda þeim út af fyrir okkur en við hlökkum til að spila fótbolta."

11. sæti: KFK (35 stig)
Lokastaða í fyrra: 2. sæti í 4. deild
Í næst neðsta sæti í spánni er KFK sem komst upp úr 4. deildinni ásamt Vængjum í fyrra. KFK er tiltölulega nýtt félag en það er mikill metnaður þar á bæ, og mikið lagt í þetta. Það hafa verið miklar breytingar á leikmannahópnum í vetur, nýir leikmenn hafa komið inn og nokkrir stórir póstar frá því í fyrra farið annað. Svona smá óskrifað blað. Það eru nokkur stór nöfn í þessu liði sem verða líklega ansi góðir í þessari deild. Má þar helst nefna Sam Hewson, sem samdi við félagið í vetur. Hewson er með mikla reynslu úr Bestu deildinni og Lengjudeildinni. Og auðvitað er hann fyrrum fyrirliði varaliðs Manchester United.

Lykilmenn: Sam Hewson, Sigurður Gísli Bond Snorrason og Unnar Ari Hansson.

Fylgist með: Bóas Heimisson (2004)

Þjálfarinn segir - Búi Vilhjálmur Guðmundsson
„Spáin kemur mér alls ekki á óvart og tek ég henni fagnandi. Okkur hefur ekki vegnað vel í vetur vegna mikilla meiðsla, og erum þar að auki nýliðar í deildinni þá er þetta mjög eðlileg spá. Þriðja deildin er að verða sterkari og sterkari og því ber að fagna. Það eru alvöru lið í þessari deild sem ætla sér stóra hluti í framtíðinni. Nú eru allir klárir í bátanna og tilbúnir á vertíð. Þannig að þetta er spennandi og krefjandi verkefni."

„Við erum með okkar markmið sem að við höldum fyrir okkur en við höfum mikla trú á hópnum og hópurinn hefur trú á verkefninu.. Hópurinn er stór og góður þótt sé og er mikil samkeppni í liðinu. Ég er mjög ánægður með þær breytingar sem við höfum gert á hópnum frá því í fyrra þó auðvitað hafi góðir karakterar horfið á braut þá höfum við fyllt skarð þeirra vel. Eins og ég segi þá er hópurinn spennandi. Við erum að fá til okkar nokkra leikmenn á næstu dögum ásamt því að við erum að styrkja þjálfarateymið. Erum alltaf alla daga að reyna að finna leiðir til að bæta okkur sem lið bæði á vellinum og utanvallar. Leggjum gríðarlega mikla áherslu á að hér sé góð umgjörð og að leikmenn geti æft við bestu mögulegu aðstæður til þess að bæta sig. Mikil stemmning í hópnum hjá okkur og hlakkar okkur mikið til sumarsins."

„Við vorum í svipaðri stöðu í fyrra. Og þessi spá er skiljanleg, en við erum með okkar markmið, sem við höldum fyrir okkur og það er klárlega mun hærra á töflunni en þessi spá gefur til kynna."

„KFK fyrir fólkið í landinu."


12. sæti: Elliði (34 stig)
Lokastaða í fyrra: 8. sæti í 3. deild
Í neðsta sæti í spánni er Elliði, en það munaði ekki miklu á tveimur neðstu liðunum í þessari spá. Elliði var í sjöunda sæti í spánni í fyrra og endaði þá í áttunda sætinu. Það eru tvö lið úr Árbænum í þessari deild sem er mjög áhugavert og áttu leikirnir á milli Elliða og Árbæjar að vera ansi áhugaverðir. Elliði er aðeins eldra félag en þeir hafa spilað í 3. deild síðan árið 2020. Elliði er eins konar varalið Fylkis ef svo má segja en langstærstur hluti leikmannahópsins eru strákar sem eru uppaldir í Fylki. Þarna heldur hverfisstemningin áfram. Jakob Leó Bjarnason og Jón Steindór Þorsteinsson þjálfa liðið áfram í sumar.

Lykilmenn: Pétur Óskarsson, Hlynur Magnússon og Andri Már Hermannsson.

Fylgist með: Þórður Ingi Ingimundarson (fæddur 2005)

Þjálfarinn segir - Jakob Leó Bjarnason
„Spá fyrir tímabil er séríslenskt fyrirbæri og gefur litla mynd af stöðunni á liðunum, sérstaklega í neðri deildum þar sem erfiðara er að fylgjast með. Engu að síður kryddar spá sem þessi alltaf upp á undirbúning og eykur umfjöllun um deildirnar sem er vel."

„Okkur er spáð neðsta sæti deildarinnar og við tökum þeirri spá bara með bros á vör og okkur hlakkar til að afsanna það. Í sjálfu sér skiljum við alveg af hverju okkur er spáð neðarlega ef rýnt er í félagaskipti enda höfum við lítið gert á leikmannamarkaðnum. Við vitum sjálfir best hvað við getum og kjarninn í liðinu er reynslumikill og hefur spilað lengi saman, það mun fleyta okkur langt. Liðið hefur einnig verið í deildinni í fjögur ár og aldrei lent í teljandi fallbaráttu, frekar höfum við daðrað við efri hlutann og því fylgir ákveðinn styrkleiki."

„Það er alltaf gaman í Elliða og það verður það áfram. En svo að það sé sagt að þá erum við ekkert í þessu bara til að hafa gaman, við þjálfararnir erum með ákveðnar kröfur og hópurinn vill ná árangri. Við höldum okkar markmiðum fyrir okkur en það er klárt mál að það munu öll lið í deildinni fá leiki gegn okkur."

Athugasemdir
banner
banner
banner