Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fös 10. nóvember 2017 16:30
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
HM á Íslandi 2022
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Icelandair
HM á Faxaflóa 2022! Staðsetning leikvanga er miðuð við raunverulega staðsetningu á HM í Katar.
HM á Faxaflóa 2022! Staðsetning leikvanga er miðuð við raunverulega staðsetningu á HM í Katar.
Mynd: Fótbolti.net
Al Bidda turninn þar sem katarska knattspyrnusambandið hefur aðsetur.
Al Bidda turninn þar sem katarska knattspyrnusambandið hefur aðsetur.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Bæjarlífið í Doha.
Bæjarlífið í Doha.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Góðærið er komið aftur, öflugra en nokkru sinni fyrr. Ákveðið hefur verið að HM verði haldið á Íslandi 2022. Borgarlínan verður gerð í snatri, sporvagnar munu flytja fólk milli valla, og flutt verður vinnuafl frá Skandinavíu, Færeyjum og Grænlandi til að vinna við óboðlegar aðstæður við að reisa átta nýja leikvanga.

Leikvangarnir verða allir hinir fullkomnustu og verða reistir í afgerandi útliti. Einn verður lagaður eins og Víkingaskip og annar með risastórum lunda ofan á þakinu, svo dæmi séu tekin. Lundinn verður svo auðvitað lukkudýr keppninnar.

Flestir vellirnir taka um 45 þúsund manns og aldrei verður lengra að ferðast milli valla en 60 mínútur. Faxaflóamót. Tveir risastórir leikvangar í Reykjavík (nýr Laugardalsvöllur og einn í Grafarvogi) og svo verða vellir í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði (við Straumsvík), Seltjarnanesi, Akranesi og einn við Bláa lónið. Þar byggjum við líka risastóra verslunarmiðstöð.

Það er stundum skemmtilegt að ímynda sér hvernig Ísland væri ef við hefðum olíu og gas á við Katar, eitt ríkasta land heims. Þessar staðsetningar sem ég nefni hér að ofan eru engin tilviljun. Þær eru reiknaðar út af Hafliða Breiðfjörð, samstarfsmanni mínum, og eru í takt við fjarlægðirnar milli HM leikvangana í Katar.

Heimamenn reisa það sem þeir vilja
Að koma til Katar er gríðarleg upplifun. Þetta er land sem er svo ólíkt Íslandi að erfitt er að gera sér grein fyrir því nema koma hingað. Byggingarkranar um allt, skýjakljúfar (er hægt að nota það orð í landi þar sem alltaf er heiðskírt?), hraðbrautir og nýtískulegar byggingar rísa um allt í eyðimörkinni.

Risastórar verslunarmiðstöðvar sem eru ansi tómlegar og fullt af tómum risastórum húsum. Peningabrunnurinn er það djúpur að heimamenn reisa bara það sem þeir vilja.

Í þessu litla Furstadæmi búa 350 þúsund Katarar. Gerir samanburðinn við Ísland enn skemmtilegri! Alls búa þó 2,7 milljónir manns í Katar en stærð landsins er um það bil 10% af stærð Íslands. Heimamenn þurfa ekki að vinna svo erlent vinnuafl, mest frá Asíu, sér um öll láglaunastörf í landinu.

Neikvæðar fréttir hafa streymt í fjölmiðla eftir að Sepp Blatter, fyrrum forseti FIFA, tilkynnti að HM 2022 yrði haldið í landinu. Sterkar grunsemdir eru um að þjóðin hafi fengið mótið með því að múta þeim sem kusu. Þá hafa hryllilegar aðstæður verkafólks einnig verið gagnrýndar harðlega en mörg dauðsföll hafa orðið meðal farandverkamanna sem vinna stórhættulega erfiðisvinnu í gríðarlegum hita án þess að fá mikla hvíld.

Ég heimsótti höfuðstöðvar knattspyrnusambands Katar í gær og fékk kynningu á þeim hugmyndum sem eru í gangi fyrir mótið. Sú kynning var að sjálfsögðu vel sykurhúðuð og vilja mótshaldarar meina að búið sé að vinna mikið starf í að efla öryggi verkamanna. Betur má ef duga skal.

Allir á sama svæðinu
Þrátt fyrir mjög ljóta bletti í framkvæmd mótsins er ýmislegt sem mun gera þetta mót einstakt og spennandi. Þar er ótrúlega stutt fjarlægð milli keppnisvalla eitt það helsta. Mest mun taka 60 mínútur að komast milli valla og leikandi létt verður hægt að fara á tvo leiki á sama degi. Allir stuðningsmenn og keppnislið verða á sama svæðinu. Katarska knattspyrnusambandið notar stór orð og ætlar að bjóða upp á flottasta og skemmtilegasta HM sögunnar.

Katar er strang­trúað mús­líma­land og hvergi er selt áfengi í landinu nema fyrir ferðamenn á vissum hótelum og þar þarf að fara í gegnum vegabréfseftirlit áður en menn skella sér á barinn. Landslög verða þó beygð fyrir HM og verða sett upp sérstök stuðningsmannasvæði þar sem fólk getur skellt í sig einum köldum í 30 stiga hitanum.

Eitt af ýmsu sem hægt er að setja spurningamerki við þegar Katar varð fyrir valinu að halda HM er sú staðreynd að íþróttaáhuginn í landinu er hreinlega mjög lítill. Mætingin á leiki í katörsku deildinni er döpur. Þegar stærstu liðin mætast innbyrðis gætu komið í kringum 6 þúsund manns en á öðrum leikjum eru nánast tómar stúkur. Mótshaldarar binda vonir við það að HM muni rífa upp íþróttaáhugann í landinu en eins og staðan er þá er erfitt að sjá þá leikvanga sem reistir verða fá almennilega nýtingu í framtíðinni.

Í Katar hafa menn reyndar ekki miklar áhyggjur af því. Vellirnir verða minnkaðir eftir mótið og svo væri reyndar lítið mál að rífa þá bara og byggja eitthvað annað ef þeir þvælast fyrir í framtíðinni. Það er nóg til. Ofan á allt annað mun landið eignast öflugt samgöngukerfi með því að halda mótið.

Það var vel tekið á móti mér og Hafliða í turni katarska knattspyrnusambandsins í Doha. Myndatökur voru því miður bannaðar í turninum en á einni hæðinni má finna sérstakan sýningarsal þar sem hægt er að kynna sér allt í kringum HM 2022. Salurinn er þó aðeins opinn boðsgestum. Þar er hægt að skoða tölvugert kort sem sýnir allar framkvæmdir og sjá líkön af leikvöngunum. Þetta var eins og að fara í tímavél og skella sér vel inn í framtíðina.

Vonandi fær maður að fylgja íslenska landsliðinu á HM 2022 og sjá draum Katara vera orðinn að veruleika.
Athugasemdir
banner
banner
banner