Man Utd vill fá Watkins - Helmingslíkur á að Ten Hag verði áfram - PSG hefur áhuga á Mateta
   fim 13. júlí 2023 10:05
Elvar Geir Magnússon
Dele Alli var kynferðislega misnotaður og seldi eiturlyf sem barn
Dele Alli opnar sig.
Dele Alli opnar sig.
Mynd: Getty Images
Hann hefur átt erfitt uppdráttar á ferli sínum.
Hann hefur átt erfitt uppdráttar á ferli sínum.
Mynd: Getty Images
Hann ólst upp hjá MK Dons en fór svo til Tottenham.
Hann ólst upp hjá MK Dons en fór svo til Tottenham.
Mynd: EPA
Fótboltamaðurinn Dele Alli hefur opnað sig í viðtali og segist hafa verið misnotaður þegar hann var sex ára og hafi verið farinn að selja eiturlyf þegar hann var átta ára.

Í tilfinningaþrungnu viðtali við Gary Neville í The Overlap lýsir Dele Alli, sem er leikmaður Everton, erfiðri æsku sinni áður en hann var ættleiddur af Hickford fjölskyldunni. Hann á erfitt með að halda aftur af tárunum í viðtalinu.

Alli er fyrrum leikmaður enska landsliðsins og var lykilmaður í liðinu sem komst í undanúrslit á HM 2018.

„Þegar ég var sex ára var ég misnotaður af vini mömmu minnar sem var mikið heima hjá okkur, mamma mín var alkahólisti. Ég var sendur til Afríku til að læra aga og svo þegar ég kom aftur sjö ára gamall byrjaði ég að reykja. Átta ára var ég farinn að selja eiturlyf," segir Dele Alli.

„Eldri einstaklingur sagði mér að það yrðu ekki höfð nein afskipti af krakka á hjóli, svo ég hjólaði um með fótboltann minn en ég ferðaðist líka með eiturlyf. Þarna var ég átta ára."

Þegar hann var tólf ára gamall var hann ættleiddur og þá gjörbreyttist líf hans. Hann sagðist ekki hafa getað eignast betri fjölskyldu: „Ef Guð hefur skapað fólk þá skapaði hann þau."

Drakk mikið og misnotaði svefntöflur
Alli, sem er 27 ára og er fyrrum leikmaður Tottenham, hefur átt í vandræðum með fótboltaferil sinn undanfarin ár. Hann var á láni hjá Besiktas í Tyrklandi á síðasta tímabili.

„Þegar ég kom frá Tyrklandi komst ég að því að ég þyrfti að fara í aðgerð og ég var á slæmum stað andlega. Ég ákvað að fara á nútímalega endurhæfingarstöð þar sem andlegu heilsunni er sinnt. Hugsað er um geðheilbrigði og tekist á við fíkn, geðheilsu og áföll," segir Alli.

Hann segist oft hafa 'sett á sig grímu' og falið andlega vanlíðan sína.

„Innst inni var ég samt klárlega að tapa baráttunni. Þegar ég meiddist og mér var sagt að ég þyrfti aðgerð þá fann ég að hringrásin færi aftur af stað, ég vildi ekki að þetta myndi endurtaka sig. Ég fékk 100% stuðning frá Everton. Ég fékk ótrúlegan stuðning og verð þakklátur félaginu til æviloka."

Alli segist hafa gert ýmislegt til að bæla niður tilfinningar sínar, hafi leitað í áfengi og misnotað svefntöflur.

„Ég varð háður svefntöflum, það er vandamál sem líklega fleiri en ég eru með. Ég held að það sé stærra vandamál í fótboltanum en fólk gerir sér grein fyrir. Maður þarf að vakna snemma til að æfa, það er allt þetta adrenalín og það. Stundum er í lagi að taka svefntöflu til að vera tilbúinn fyrir næsta dag en þegar þú ert eins brotinn og ég er þá getur þetta haft öfug áhrif," segir Dele Alli.


Athugasemdir
banner
banner