Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   mán 13. nóvember 2017 18:00
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Rándýra hvelfingin sem á að framleiða árangur
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Icelandair
Fylgst með æfingu við Aspire-hvelfinguna.
Fylgst með æfingu við Aspire-hvelfinguna.
Mynd: FourFourTwo
Loftmynd af hvelfingunni.
Loftmynd af hvelfingunni.
Mynd: Getty Images
Ivan Bravo.
Ivan Bravo.
Mynd: Getty Images
Íslenska landsliðið er í Katar og mætir heimamönnum á morgun.
Íslenska landsliðið er í Katar og mætir heimamönnum á morgun.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í Katar búa menn sig undir það risastóra verkefni að halda HM í fótbolta árið 2022. Af mörgu er að huga í framkvæmdinni, reisa þarf leikvanga og samgönguæðar og sjá til þess að öll umgjörð sé í stakasta lagi.

Í þessa þætti er verið að dæla miklum peningum en það er fleira sem þarf að huga að. Landslið Katar verður fyrstu gestgjafarnir frá 1934 (Ítalía) sem tekur þátt í lokakeppni HM í fyrsta sinn.

Katar hefur ekki verið hátt skrifað fótboltalandslið en það hefur verið unnið markvisst að því að liðið verði vel samkeppnishæft þegar kemur að stóru stundinni. Og það kemur ekki á óvart að í þessu landi þar sem olía og gas breytast í peninga hafi miklu verið til kostað til að ná árangri í íþróttum.

Miðpunkturinn í því verkefni er Aspire-hvelfingin þar sem ein fullkomnasta akademía heims er starfrækt. Þar ræður ríkjum Ivan Bravo sem starfaði á sínum tíma fyrir Real Madrid en er nú framkvæmdastjóri akademíunnar.

Í umræddri hvelfingu er allt til alls, fjöldi íþróttasala og þar á meðal yfirbyggður fótboltavöllur þar sem hægt er að stýra hitastiginu. Bravo fékk nánast botnlausan peningabrunn til að stýra verkefni akademíunnar. Hann hélt mjög athyglisverðan fyrirlestur í Hörpu á síðasta ári og mæli ég sterklega með því að þú horfir á upptöku frá honum.

Í akademíuna hafa verið ráðnir gríðarlega færir þjálfarar frá Evrópu. Með skipulögðum hætti er fylgst með krökkum í Katar niður í sex ára aldur og mat lagt á hvort þeir geti orðið afreks íþróttamenn. Um ellefa ára aldur geta krakkar fengið skólasamning hjá akademíunni, þar sem þeir stunda nám ásamt því að æfa tvisvar á dag.

Emírinn í Katar lét stofna akademíuna árið 2004 en hann telur að í gegnum íþróttir geti þjóðin komið sér almennilega á heimskortið. 2010 opnaði Sepp Blatter umslagið þar sem kom í ljós að Katar fengi að halda HM 2022, umrætt umslag er innrammað í sýningarsal í höfuðstöðvum knattspyrnusambands lagt. Eftir þá niðurstöðu var Bravo ráðinn og mikil áhersla lögð á fótboltann í landinu.

2014 varð U19 landslið Katar Asíumeistari. Allir leikmenn liðsins komu úr Aspire akademíunni.

Xavi, einn besti miðjumaður sem fótboltinn hefur séð, kom í katörsku deildina 2015. Hann er sendiherra fyrir HM 2022 og er byrjaður að mennta sig í þjálfarafræðum í landinu.

Eitt besta dæmið um peningana í þessu er sú staðreynd að 2012 keypti Aspire akademían fótboltafélag í Belgíu, Eupen. Tilgangurinn var að fá vettvang í Evrópu fyrir leikmenn úr akademíunni. Í eignartíð Aspire tókst Eupen að komast upp úr B-deildinni í Belgíu og leikur nú i efstu deild. Liðið er reyndar í neðsta sæti sem stendur en Claude Makelele var ráðinn þjálfari nýlega og á að rétta skútuna við.

Meðal leikmanna Eupen er Akram Afif, tvítugur sóknarleikmaður sem bundnar eru miklar vonir við í Katar. Á síðasta ári keypti spænska félagið Villarreal leikmanninn og var hann þar með fyrsti Katarinn sem keyptur var í La Liga. Hann var keyptur til Eupen og lánaður aftur til félagsins síðasta sumar.

Eitt sem er erfitt að kaupa er ástríða fyrir fótbolta. Það er þó reynt. Það er staðreynd að mætingin á deildarleiki í Katar er ekki upp á marga fiska og Guardian hefur fullyrt að útlendingar sem starfa í landinu fái greitt fyrir að mæta á leiki. Þar er jafnvel talað um að sumir hverjir klæði sig eins og innfæddir og eigi að láta í sér heyra. Þetta er reynt til að búa til stemningu á leikjunum og þannig lokka heimamenn á völlinn. Margir halda því fram að þetta hafi hinsvegar öfug áhrif.

Það er enn langt í HM og vonandi mun fótboltaáhugi Katara aukast mikið á næstu árum.

Verkefnið sem Bravo og hans menn í Aspire-hvelfingunni eru að vinna að er allavega einstakt og óneitanlega forvitnilegt. Landslið Katar er áhugavert lið og spennandi að sjá hversu langt það er komið þegar leikinn verður vináttulandsleikur gegn Íslandi á morgun.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner