Liverpool berst við spænsku risana um Wharton - Nkunku orðaður við Liverpool - Rodrygo í enska boltann?
   fim 07. maí 2009 08:00
Fótbolti.net
Spá fyrirliða og þjálfara í 1.deild karla: 4.sæti
Mynd: Fótbolti.net - Gunnar Þórir
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um fyrstu deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í fjórða sætinu í þessari spá var KA sem fékk 154 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um KA.


4.sæti: KA
Búningar: Gul treyja, bláar buxur, gulir sokkar.
Heimasíða: http://www.ka-sport.is/fotbolti//

KA hafnaði í fjórða sætinu í fyrra og spáð er því að það verði á sama stað þetta árið. Það var stórt bil upp í þriðja sætið í fyrra, alls 14 stig eða fleiri en voru niður í fallsæti. Liðið gerði því aldrei atlögu að úrvalsdeildarsæti en þrjú efstu liðin sáu alfarið um þá baráttu. Krafan um úrvalsdeildarbolta er orðin ansi hávær á Akureyri og góður árangur í yngri flokkum hlýtur að fara að skila sér í betri meistaraflokkum.

KA hefur orðið fyrir nokkurri blóðtöku frá í fyrra. Þeir missa fyrirliðann Elmar Dan Sigþórsson vegna atvinnu sem honum bauðst í Noregi, Andri Júlíusson er kominn aftur í ÍA og þá var ákveðið að endurnýja ekki samning varnarmannsins Janez Vrenko. Almarr Ormarsson yfirgaf liðið um mitt mót í fyrra og hélt í úrvalsdeildina til Fram. Líklegt er að skörð þessara leikmanna verði fyllt með heimamönnum en KA á þónokkuð af efnilegum leikmönnum.

KA hefur hæfileikaríka leikmenn sem geta spilað flottan fótbolta. Dean Martin heldur áfram hlutverki sínu sem spilandi þjálfari en hann var valinn í lið ársins í 1. deildinni í fyrra og er algjör lykilmaður hjá liðinu. KA hlaut fjögur stig í riðli sínum í Lengjubikarnum en þar mætti liðið tveimur öðrum 1. deildarliðum. KA vann Aftureldingu og gerði jafntefli við granna sína í Þór.

Arnar Már Guðjónsson er liðinu mjög mikilvægur en hann gekk til liðs við KA fyrir tímabilið í fyrra og var markahæsti leikmaður liðsins með fimm mörk í 1. deildinni í fyrra. Á miðjunni má síðan finna Srdan Tufegdzig sem er góður leikmaður sem ætti að vera farinn að læra enn betur inn á íslenska fótboltann.

Af ungum og spennandi leikmönnum KA má nefna Andra Fannar Stefánsson, sem reyndar var í stóru hlutverki í fyrra. Andri er fæddur 1991 og bætir sig ár frá ári. Hann hefur verið virkilega góður á undirbúningstímabilinu og ætti að vera enn sterkari í sumar en í fyrra. Það sama á við um jafnaldra hans, Hauk Heiðar Hauksson, sem er mikið efni og við mælum með að fólk hafi auga með.

Styrkleikar: Sandor Matus er einn besti markvörður sem spilar hér á landi og hefur sýnt KA mikla tryggð. Ótrúlegur vítabani og það er mjög þægilegt fyrir leikmenn KA að vita af honum fyrir aftan sig. KA nær í flest sín stig á heimavelli þó mætingin á leiki liðsins mætti reyndar vera mun betri en þó hefur stemningin aukist með tilkomu stuðningsmannahópsins Vinir Sagga. KA er agað lið sem getur spilað fínan fótbolta og ekkert lið getur bókað sigur gegn.

Veikleikar: Sóknarleikurinn gæti verið stórt vandamál hjá KA í sumar en liðinu hefur gengið erfiðlega að skora mörk í vetur og vantar alvöru markaskorara. KA má alls ekki við því að missa lykilmenn í meiðsli og líkt og hjá grönnum þeirra í Þór gæti sumarið orðið ansi erfitt ef byrjunin verður ekki góð.

Þjálfari: Dean Martin er að fara að sigla í sitt annað tímabil sem þjálfari KA. Fyrir norðan eru menn ánægðir með árangurinn á hans fyrsta tímabili en sumarið 2007 var það aðeins fjölgun liða sem bjargaði liðinu frá falli. Ef hann nær að bæta árangurinn frá í fyrra er líklegt að KA gæti gert atlögu að úrvalsdeildarsæti.

Lykilmenn: Sandor Matus, Arnar Már Guðjónsson og Dean Martin.


Komnir: Bjarni Pálmason frá Hvöt, Guðmundur Óli Steingrímsson frá Völsungi, Hallgrímur Mar Steingrímsson frá Völsungi, Sveinbjörn Már Steingrímsson frá Völsungi.

Farnir: Andri Júlíusson í ÍA, Elmar Dan Sigþórsson til Noregs, Gyula Horvarth til Ungverjalands, Arnór Egill Hallsson til Fjarðabyggðar, Janez Vrenko.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. KA 154 stig
5. Selfoss 145 stig
6. Haukar 142 stig
7. Þór 132 stig
8. ÍR 109 stig
9. Leiknir R. 81 stig
10. Afturelding 61 stig
11. Fjarðabyggð 52 stig
12. Víkingur Ólafsvík 44 stig
Athugasemdir